Fótbolti

Danir koma með sigur inn á HM og Spánn getur ekki tapað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Danmörk fagnar einu af tveimur mörkum sínum í kvöld.
Danmörk fagnar einu af tveimur mörkum sínum í kvöld. vísir/getty
Danir unnu 2-0 sigur á Mexíkó í síðasta vináttulandsleik liðana áður en þau halda til Rússlands á HM í knattspyrnu.

Leikið var á heimavelli Bröndby í kvöld en fyrsta markið lét bíða eftir sér. Það kom ekki fyrr en á 71. mínútu er Yussuf Poulsen kom heimamönnum yfir.

Christian Eriksen tvöfaldaði svo forystuna þremur mínútum síðar og Danir fara með 2-0 sigur á bakinu inn á HM. Þar eru þeir í riðli með Perú, Ástralíu og Frakklandi en þeir hefja leik gegn Perú á laugardaginn eftir viku.

Mexíkó er í riðli með Þýskalandi, Svíþóð og Suður-Kóreu en þeir hefja leik á þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. júní. Þá leika þeir gegn Þjóðverjum, ríkjandi heimsmeisturum.

Svíþjóð mistókst að skora gegn Perú á heimavelli í kvöld en liðin eru að leika sína síðustu vináttulandsleiki fyrir HM. Leikið var á Gamla Ullevi fyrir framan rúmlega 30 þúsund manns.

Spánn marði sigur á Túnis en leikið var í Rússlandi í dag. Iago Aspas skoraði eina mark leiksins fimm mínútum fyrir leikslok en Spánverjar eru með Portúgölum, Marókkó og Íran í riðli.

Spánverjar hafa nú farið í gegnum tuttugu leiki án ósigurs og eru þeir með flesta leiki án ósigurs af öllum landsliðum heims. Næst koma Belgía og Marokkó með átján.

Túnis er í riðli með Belgíu, Panama og Englandi en þeir hefja leik eftir rúma viku, eða mánudaginn átjánda júní. Þeir spila fyrst við England en Spánverjar byrja gegn Portúgölum á föstudaginn.

Frakkland gerðu jafntefli við Bandaríkjamenn, 1-1. Bandaríkin komst yfir með marki frá Julian Green en Frakkar höfðu aldrei fengið á sig mark gegn Bandaríkjunum fyrr en nú.

Kylian Mbappe náði þó að jafna áður en yfir lauk. Frakkar eru með Ástralíu, Perú og Danmörku í riðli eins og segir hér að ofan en Frakkarnir byrja á því að mæta Áströlum 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×