Enski boltinn

Lyon: Fréttir af kaupum Liverpool á Fekir eru falskar fréttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nabil Fekir skoraði fyrir franska landsliðið í undirbúningsleik á dögunum. Hér fagnar hann marki sínu með Blaise Matuidi.
Nabil Fekir skoraði fyrir franska landsliðið í undirbúningsleik á dögunum. Hér fagnar hann marki sínu með Blaise Matuidi. Vísir/Getty
Franski landsliðsframherjinn Nabil Fekir var sagður á leiðinni til Liverpool í flestum enskum fjölmiðlum í gærkvöldi en nú virðist vera komið eitthvað babb í bátinn.

Nabil Fekir er ennþá leikmaður Lyon og franska félagið hefur nú tilkynnt það á Twitter að ekkert sé til í þeim fréttum að Liverpool sé að ganga frá kaupum á leikmanninum.  

Fjölmiðlar eins og bæði Guardian og BBC sögðu frá því í gær að Liverpool myndi kaupa Nabil Fekir á 52 milljónir punda og leikmaðurinn átti að vera á leiðinni í læknisskoðun í dag.

Liverpool væri staðráðið í að ganga frá kaupunum fyrir HM en Nabil Fekir mun spila með franska landsliðinu á HM í Rússlandi. Leikmaðurinn sjálfur er sagður vera mjög spenntur að spila fyrir Liverpool.

Nabil Fekir virðist hinsvegar vera talsvert frá því að komast á Anfield ef marka má nýjast útspil félagsins hans.

Tilkynningu Lyon má sjá hér fyrir neðan.





„Olympique Lyon neitar því að eitthvað sé til í fölskum fréttum sem voru í mörgum fjölmiðlum um félagsskipti Nabil Fekir til Liverpool.“

Nabil Fekir átti frábært tímabil með Lyon en hann skoraði 18 mörk og gaf 8 stoðsendingar í frönsku deildinni.

Liverpool er þegar búið að ganga frá kaupum á miðjumönnunum Fabinho og Naby Keita en það gæti orðið mun erfiðara fyrir félagið að ganga frá kaupunum á Nabil Fekir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×