Fótbolti

Enskur landsliðsmaður glímir við þunglyndi en þorði ekki að segja foreldrunum frá því

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rose í leik með enska landsliðinu.
Rose í leik með enska landsliðinu. vísir/getty
Enski landsliðsmaðurinn Danny Rose opnaði sig í enskum fjölmiðlum í gær um þunglyndi sem hann hefur verið að glíma við.

„Það er ekkert leyndarmál að ég var að klára mjög erfitt tímabil hjá Tottenham. Það endaði á því að ég fór að hitta sálfræðing og var greindur með þunglyndi. Það veit enginn af því,“ sagði Rose sem ákveður að greina fjölskyldunni frá vandamálinu í fjölmiðlum.

„Ég hef ekki sagt mömmu og pabba frá þessu og þau verða örugglega reið að þurfa að lesa um þetta í blöðunum. Ég vildi bara halda þessu fyrir mig í fyrstu.“

Það var ýmislegt sem leiddi til þess að hann varð þunglyndur. Hann var meiddur í átta mánuði og svo dundi yfir annað áfall.

„Frændi minn svipti sig lífi á meðan ég var í endurhæfingu og það átti sinn þátt í því að ég varð þunglyndur. Svo hefur meira koma til. Mamma lenti í kynþáttaníði í Doncaster og það hafði mikil áhrif á hana. Svo kom einhver heim og var næstum því búinn að skjóta bróðir minn í andlitið. Það var hleypt af byssu heima hjá mér,“ segir Rose alvarlegur en honum líður vel með landsliðinu og er á leið á HM.

„Herbúðir enska landsliðsins hafa verið mínar björgunarbúðir. Ég get ekki sagt nógu oft takk við landsliðsþjálfarann og sjúkraliðið hérna. Læknir Tottenham hefur líka hjálpað mér mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×