Fótbolti

Enska landsliðið mun ekki ganga af velli ef leikmenn liðsins verða fyrir kynþáttaníði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Southagte og Rose.
Southagte og Rose. vísir/getty
Margir hafa áhyggjur af kynþáttaníði á HM í Rússlandi enda gerist það því miður æði oft að leikmenn lendi í slíkum uppákomum í fótboltaleikjum þar í landi.

Bara síðast í mars var rússneska knattspyrnusambandið sektað þar sem áhorfendur voru með kynþáttaníð í garð hörundsdökkra leikmanna franska landsliðsins.

Varnarmaður enska landsliðsins, Danny Rose, segist vera orðinn ónæmur fyrir níðinu úr stúkunni og hefur þess utan enga trú á kerfi fótboltayfirvalda. Rose hefur sagt fjölskyldu sinni að koma ekki til Rússlands því það geti átt von á öllu þar.

Því hefur eðlilega verið velt upp hvað lið eigi að gera ef leikmenn verða fyrir kynþáttaníði á HM. Landsliðsþjálfari Englands, Gareth Southgate, fékk þessa spurningu í gær.

„Í fullkomnum heimi myndum við labba af velli en það myndi þýða að okkur yrði hent heim af mótinu. Ég held að leikmenn hafi ekki áhuga á því þeir hafa æft alla ævina til þess að spila á HM,“ sagði Southgate.

Leikmenn enska landsliðsins hafa rætt þessi mál sín í milli og ætla að bregðast við á einhvern hátt ef svona kemur upp á. Þó ekki með því að labba af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×