Fótbolti

Frakkar minntu á sig með yfirburðasigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Frakkar yfirspiluðu Íslendinga 5-2 á EM fyrir tveimur árum. Þeir virðast til alls líklegir í Rússlandi í sumar.
Frakkar yfirspiluðu Íslendinga 5-2 á EM fyrir tveimur árum. Þeir virðast til alls líklegir í Rússlandi í sumar. vísir/getty
Frakkar höfðu betur gegn Ítölum í vináttulandsleik í kvöld. Samuel Umtiti, Antoine Griezmann og Ousmane Dembele skoruðu mörk Frakka.

Umtiti var ekki lengi að koma heimamönnum yfir en hann skoraði af stuttu færi eftir darraðadans í vítateig Ítala upp úr aukaspyrnu Antoine Griezmann.

Frakkar voru með mikla yfirburði í leiknum og höfðu Ngolo Kante skotið í slá og Kylian Mbappe komist í dauðafæri áður en Griezmann skoraði annað mark Frakka úr vítaspyrnu á 29. mínútu.

Ítalir náðu hins vegar að svara úr einu af fáu marktækifærunum sem þeir fengu í fyrri hálfleik. Brotið var á Mario Balotelli rétt fyrir utan vítateig og hann tók aukaspyrnuna sjálfur. Spyrnan fór beint á Hugo Lloris í markinu en Tottenham-maðurinn varði boltann út í teiginn þar sem Leonardo Bonucci potaði tá í boltann og skoraði af stuttu færi.

Yfirburðir Frakka héldu áfram í seinni hálfleik og eftir fjöldan allan af færum náði Ousmane Dembele loks að koma þriðja markinu inn rétt eftir að klukkutími var liðinn.

Fleiri urðu mörkin ekki og 3-1 sigur Frakka staðreynd. Annar sigurinn í vináttulandsleik á stuttum tíma en þeir unnu Íra í vikunni 2-0. Frakkland hefur leik á HM þann 16. júní, líkt og við Íslendingar, þar sem þeir mæta Áströlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×