Allir strákarnir voru mættir á Spartak-leikvanginn í morgun þar sem æfing hófst klukkan 12 að staðartíma, níu að íslenskum tíma. Rétt rúmur sólarhringur er í að flautað verði til leiks gegn Argentínu á morgun.
Ekki er að sjá að flugvélamaturinn sé að stríða leikmönnum nokkuð en nokkur fjöldi blaðamanna hefur verið með magapínu eftir ferðalagið til Moskvu í gær. Átján stiga hiti er í Moskvu, sólin skín og þægilegur hiti inni á leikvanginum.
Fjölmargir blaðamenn frá hinum ýmsu löndum fylgdust með fyrstu fimmtán mínútunum af æfingunni sem og ljósmyndarar sem skiptu tugum. Mikill áhugi er fyrir leiknum en hann var annar tveggja sem fyrst seldist upp á.
Rússar mættu Sádí-Arabíu hér í höfuðborginni í gær en enginn leikur er í Moskvu í dag. Svo er það ballið á morgun.
Framundan er blaðamannafundur með Aroni Einari Gunnarssyni og Heimi Hallgrímssyni sem hefst klukkan 10:15 að íslenskum tíma. Vísir verður í beinni og er upphitun fyrir fundinn löngu hafin.
Íslenskt sumarveður og allir mættir á lokaæfinguna
Kolbeinn Tumi Daðason á Spartak-leikvanginum skrifar
