Í þá daga þegar engan Íslending dreymdi einu sinni um að sjá íslenska landsliðið keppa á HM þá voru mjög margir sem héldu með þessu stórskemmtilega landsliði Dana á gullaldarárum þess. Danir voru með léttleikandi lið sem skoraði mörk og skemmti litríkum stuðningsmönnum sínum.
Heimsmeistarakeppnin í Mexíkó var mikið ævintýri fyrir dönsku þjóðina enda gekk frábærlega framan af móti eða allt þar til að liðið mætti sigurreift í sextán liða úrslitin.

Danska landsliðið hafði valdið miklum vonbrigðum á sjöunda og áttunda áratugnum þrátt fyrir að eiga margra frambærilega leikmenn. Hver man ekki eftir liðinu sem vann Ísland 14-2 í Parken.
Danska liðið komst reyndar í úrslitakeppni EM 1964 en það var eina stórmót Dana þegar liðið náði loksins að tryggja sig inn á EM í Frakklandi 1984.
Upphafið af viðsnúningnum var eflaust þegar Þjóðverjinn Sepp Piontek var ráðinn þjálfara liðsins í júlí 1979 og kom með miklu meiri aga inn í liðið. Danska kæruleysið var ekki lengur allsráðandi.

Danir komust hinsvegar á EM tveimur árum síðar þar sem þeir skildu Englendinga eftir í undankeppninni. Danska liðið fékk viðurnefnið danska dýnamítið eftir frábæra frammistöðu sína á EM 1984 þar sem liðið fór alla leið í undanúrslit þar sem liðið tapaði í vítakeppni á móti Spáni.
Reynslunni ríkari þá mættu dönsku landsliðsmennirnir með bullandi sjálfstraust inn á HM í Mexíkó. Það hafði gengið vel hjá leikmönnunum með félagsliðum sínum á tímabilinu en í liðinu voru meðal annars leikmenn sem höfðu orðið enskir, ítalskir, vestur-þýskir, hollenskir og belgískir meistarar tímabilið 1985 til 1986.

Danir höfðu verið valdir bestu stuðningsmennirnir á EM 1984 og höfðu unnið hug og hjörtu heimsins með litríkri og skemmtilegri framkomu sinni.
Liðið sjálft var líka frábært sem það sýndi i riðlakeppninni á HM í Mexíkó. Með framherjann Preben Elkjær Larsen og hinn magnaða Michael Laudrup í stuði þá áttu Skotland, Úrúgvæ og Vestur-Þýskaland engin svör.

Leikurinn byrjaði líka vel þegar Jesper Olsen kom Dönum í 1-0 með marki úr vítaspyrnu en skelfileg mistök Olsen færðu Spánverjum jöfnunarmark á silfurfati. Markið skoraði Emilio Butragueno betur þekktur sem gammurinn vegna þess hversu vel hann nýtti sér mistök mótherjanna.
Leikur danska liðsins hrundi síðan í seinni hálfleik. Butragueno skoraði þar þrjú mörk og því fjögur alls og fimmta markið skoraði síðan Andoni Goikoetxea.
HM-ævintýri Dana endaði því snögglega og þeir voru á heimleið. Á EM tveimur árum seinna töpuðust allir þrír leikirnir og danska liðinu mistókst síðan að komast á HM á Ítalíu 1990. Það hafði sloknað á danska dýnamítinu.



