Magnús Gylfason er staddur með íslenska landsliðinu í Rússlandi sem formaður landsliðsnefndar KSÍ. Hann segir í mörg horn að líta í sínu hlutverki.
„Ég er hálfgerður yfirfararstjóri. Ég tek á því sem kemur upp og hjálpa þjálfurunum, starfsliðinu og leikmönnunum. En við erum aðallega að koma fram fyrir hönd KSÍ út á við, bæði gagnvart Rússunum og gagnvart FIFA,“ sagði Magnús eftir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í gær, þar sem blaðamaður Fréttablaðsins náði tali af honum.
2.000 manns fylgdust með æfingunni sem var opin almenningi. Íslenski hópurinn lenti í Rússlandi á laugardagskvöldið og kom sér síðan fyrir á hótelinu í Gelendzhik. Öfugt við hvernig hlutunum var háttað á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi árið 2016 er íslenski hópurinn ekki með allt hótelið út af fyrir sig.
„Í Frakklandi leigðum við hótel og vorum einir þar. Hér erum við inni á hóteli með öðrum gestum. En við höfum reyndar séð mjög fáa til þessa. Okkur líður vel á hótelinu sem er flott. Allar aðstæður eru einfaldlega hinar bestu,“ bætti Magnús við.
Íslenski hópurinn lagði seinna af stað til Rússlands en áætlað var af þeim sökum að landsliðsþjálfarinn, Heimir Hallgrímsson, setti töskuna sína óvart í rútu sem var á leið í Stykkishólm. Mistökin uppgötvuðust þó blessunarlega fljótt og töskunni var komið aftur í hendur Heimis. „Það hefur ekkert teljandi komið upp fyrir utan töskuna frægu,“ sagði Magnús og hló.
„Völlurinn hérna er frábær og hiti og sól. Þetta er eins og strákarnir vilja hafa það. Sendinefnd frá okkur var búin að koma fimm sinnum og það var allt lagað sem þurfti að laga.“ Magnús er sjálfur þrautreyndur þjálfari og viðurkennir að hann hafi kitlað í þjálfaraputtana á æfingunni í gær. „Það má segja það. Ég hef reynt að ýta því frá mér hingað til. En við svona aðstæður er algjörlega geggjað að þjálfa fótbolta,“ sagði Magnús.
Kitlar í þjálfaraputtana á æfingum í Rússlandi
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið




Real Madrid vill fara í viðræður við Liverpool um Trent
Enski boltinn


„Komum Gylfa Þór meira í boltann“
Fótbolti

Hildur fékk svakalegt glóðarauga
Fótbolti


Sjáðu partýið í Kópavogi, Gylfa afgreiða Fram og nýliðana í stuði
Íslenski boltinn

Mac Allister: Liverpool er bara rétt að byrja
Enski boltinn