Miðjumaðurinn öflugi var ekki búinn að spila fótboltaleik í sex vikur þegar kom að leiknum gegn Argentínu í fyrstu umferð riðlakeppninnar en hann spilaði 75 mínútur og stóð sig frábærlega.
Hann ætlaði aldrei að spila svona lengi og hefur áður viðurkennt að hann var alveg búinn á því þegar að hann skipti við Ara Frey Skúlason. Það tók sinn tíma að jafna sig en fyrirliðinn segist vera á góðum stað.
„Mér líður vel. Auðvitað tekur tíma að ná sér 100 prósent heilum, en það kom svona í gær. Þá fann ég að ég var orðinn 100 prósent aftur. Mér leið vel á æfingunni í dag og er búinn að safna þeirri orku sem að ég þurfti á að halda,“ segir Aron en hann svaraði spurningum á fréttamannafundi í Volgograd í dag.

Íslenska liðið er ekki með flestu starfsmennina á mótinu en þeir kunna sitt fag og leggja mikið á sig eins og strákarnir okkar inn á vellinum. Aron Einar eys lofi yfir mennina sem að halda þeim gangandi á milli leikja.
„Strákarnir allir náðu sér fljótt. Ég vil hrósa sjúkrateyminu okkar sem að er búið að vinna eins og brjálæðingar. Þau eru áns gríns með okkur til tólf á nóttunni þegar þess þarf. Við erum búnir að vera á fullu að ná okkur til baka og mér sýnist bara að menn séu klárir fyrir morgundaginn,“ segir Aron Einar Gunnarsson.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.