Fótbolti

Japanir og Senegalar fóru burtu með öll þrjú stigin og allt ruslið líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Japanir taka til í stúkunni eftir leikinn.
Japanir taka til í stúkunni eftir leikinn. Vísir/Getty
Japanir og Senegalar byrjuðu heimsmeistaramótið í fótbolta frábærlega í Rússlandi í gær eða með því að vinna 2-1 sigra á sínum mótherjum í fyrsta leik. Stuðningsmenn japanska og senegalska liðsins slógu líka í gegn.

Japanir eru mjög kurteis þjóð og þar kunna menn sig. Það bjuggust þó fáir við því að þeir tækju til eftir sig í stúkunni í Saransk en það var einmitt það sem gerðist.

Eftir að hafa fagnað frábærum 2-1 sigri á Kólumbíu og skemmt sér vel allan leikinn þá var kominn tími á að fara heim. Ekki þó fyrr en að japönsku stuðningsmennirnir höfðu hreinsað upp allt ruslið í stúkunni sinni.





Japanirnir mættu með ruslapoka með sér og gengu þarna um sætaraðirnar og tóku til. Þeir skildu því við stúkuna eins hreina og hún var þegar þau mættu á svæðið fjórum tímum fyrr.

Japönsku stuðningsmennirnir voru reyndar ekki þeir einu sem gerðu þetta. Senegalar sáust líka taka til í sinni stúku eftir sigurleik á móti Póllandi.





Rússneskir mótshaldarar fagna því örugglega ef þetta ætlar að verða tískan á þessu heimsmeistaramóti, að taka til eftir sig. Það verður líka fróðlegt að skoða stúku íslensku stuðningsmannanna eftir leikinn á móti Nígeríu á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×