Fótbolti

Janne hefur trú á Englandi: „Geta unnið HM“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Janne þakkar fyrir sig eftir leikinn í kvöld.
Janne þakkar fyrir sig eftir leikinn í kvöld. vísir/getty
Janne Anderson, þjálfari sænska landsliðsins, segir að England séu nægilega öflugir til þess að vinna HM í Rússlandi 2018.

Svíarnir töpuðu 2-0 fyrir Englendingum í 8-liða úrslitunum fyrr í dag en Englendingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum.

„Já ég held að England sé með nægilega gott lið til að vinna HM. Þeir eru orkumiklir og vel skipulagðir. Ég vil hrósa þjálfarateyminu og liðinu,” sagði Janne á blaðamannafundi í leikslok.

„Þeir eru með gott fótboltalið og gefa hann ekki mikið frá sér. Ég held að þeir séu klárlega með lið sem getur farið alla leið.”

Janne segir að það hafi ekki margt farið úrskeiðis hjá sínum mönnum heldur hafi þeir einfaldlega mætt afar góðu liði.

„Ég er ekki viss um að það hafi eitthvað farið úrskeiðis. Við mættum góðu liði og náðum ekki okkar bestu frammistöðu. Það er erfitt að skapa færi gegn liði sem spilar með fimm manna vörn.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×