Fótbolti

Missti af leiknum en upplifði stórkostlegan sólarhring

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabian Delph.
Fabian Delph. Vísir/Getty
Englendingar voru bara með 22 leikmenn til taks en ekki 23 þegar þeir mættu Kólumbíumönnum í sextán liða úrslitum HM í fótbolta í Rússlandi í gærkvöldi.

Enska landsliðið tryggði sér þá sæti í átta liða úrslitum með 4-3 sigri á Kólumbíu í vítakeppni.

Einn leikmanna liðsins var í þúsund kílómetra fjarlægð frá liðsfélögum sínum og þurfti að fylgjast með í sjónvarpinu eins og stór hluti bresku þjóðarinnar.

Miðjumaðurinn Fabian Delph var nefnilega staddur heima í Englandi þar sem kona hans var að fæða þeirra þriðja barn.





Natalie, kona Fabian Delph, eignaðist síðan dóttur klukkan 7:52 í morgun að breskum tíma, og Delph flaug síðan aftur til Rússlands í dag þar sem hann hittir liðsfélaga sína á ný. Næst á dagskránni er leikur á móti Svíum í átta liða úrslitum HM á laugardaginn.

Natalie og Fabian Delph voru þarna að eignast sína þriðju stelpu.

Fabian Delph spilaði allar 90 mínúturnar á móti Belgíu í lokaleik riðlakeppninnar en fékk svo að fara heim til Englands eftir leikinn til að verða vitni af fæðingu barnsins. Delph fór til Englands á föstudaginn og var hjá konu sinni í fjóra daga.

Fabian Delph lék vita af sér á Instagram þar sem hann talaði um „stórkostlegasta sólarhringinn sinn“ á ævinni en hann horfði á liðsfélaga sína vinna Kólumbíu í gærkvöldi.

„Ég get ekki komið orðum að því hversu ánægður og þakklátur ég er,“ skrifaði Fabian Delph í Instagram færslu sína sem má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×