Þeir vissu sem var að með marki Mandžukić, sem laumað hafði boltanum framhjá enska markmanninum Jordan Pickford eftir skalla frá hinum stórhættulega Ivan Perišić, voru þeir komnir með annan fótinn inn í úrslitaleikinn - en þangað hafði króatíska landsliðið aldrei komist áður.
Þeir gáfu því tilfinningunum lausan tauminn í fagnaðarlátunum og hrúguðust ofan á framherjann við endalínuna. Það fór ekki betur en svo að ljósmyndari AFP-fréttastofunnar, Yuri Cortez, kramdist undir hersingunni.
Sjá einnig: Mandzukic: Þetta er kraftaverk
Cortez, fagmaðurinn sem hann er, lét hrúguna þó ekki trufla sig og hélt áfram að smella myndum af kampakátum Króötum. Myndirnar hans má sjá hér að neðan. Eftir að fagnaðarlátunum linnti voru króatísku landsliðsmennirnir þó fljótir að biðja Cortez afsökunar og hjálpuðu honum aftur á fætur - rétt eins og þeir höfðu hjálpað honum að ná frábærum myndum.
Króatar mæta svo Frökkum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins, sem fram fer í Moskvu á sunnudag.

