„Útileikurinn er á Parken, sem er mikil gryfja og FCK tapar fáum leikjum á þeim velli. Ég myndi telja að ef við ætlum að gera atlögu að þessu einvígi þá þurfum við að ná í góð úrslit á heimavellinum,“ sagði fyrirliði Stjörnunnar, Baldur Sigurðsson, við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Stjarnan vann öruggan 3-0 sigur á heimavelli í fyrstu umferð gegn Nömme Kalju og komst því áfram þrátt fyrir tap á útivelli í seinni leiknum.
Andstæðingurinn í annari umferð er eitt stærsta og sögufrægasta lið Norðurlandanna.
„FCK er með gríðarlega mikla sögu, bæði í deildinni heimafyrir og í Evrópukeppnum, svo við erum bara mjög spenntir yfir því að fá svona stórt lið á Samsungvöllinn,“ sagði Baldur.

Guðjón Baldvinsson fór meiddur af velli í leik Stjörnunnar og KR í vesturbænum um helgina líkt og Heiðar Ægisson.
„Heiðar fótbrotnaði á móti KR, Ævar [Ingi Jóhannesson] er tæpur og Brynjar Gauti [Guðjónsson] í leikbanni þannig að það eru smá brotföll en við erum með gott lið,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Heiðar staðfesti við Fótbolta.net í gær að hann myndi ekki geta spilað meira með Stjörnunni í sumar.
Leikur Stjörnunnar og FCK hefst klukkan 19:00 á Samsungvellinum í kvöld. Hann verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í beinni textalýsingu hér á Vísi.