„Í meginatriðum höfum við verið að búa til hugbúnað fyrir verðbréfaumsýslu annars vegar og lánaumsýslu hins vegar,“ segir Þórður Gíslason, framkvæmdastjóri og einn eigenda Libra, í samtali við Fréttablaðið.

„Libra hefur ekki verið áberandi fyrirtæki í gegnum árin, og hefur okkur liðið ágætlega með það. Við störfum á afmörkuðum markaði á Íslandi og erum vel þekkt á meðal fjármálafyrirtækja,“ segir Þórður.
Libra velti 497 milljónum á árunum 2017 sem var átta prósentum meiri velta en árið á undan. Hagnaður félagsins nam 15 milljónum króna samanborið við 51 milljón árið 2016.
Þórður segir að kaupverðið hafi verið greitt í reiðufé. Eigendur og starfsfólk Libra eignist þannig engan hlut í sameinuðu fyrirtæki Libra og Five Degrees. Þórður átti 67 prósenta hlut í Libra fyrir samrunann á móti 15 öðrum hluthöfum sem áttu allir minna en 10 prósenta hlut.
„Við höfum undanfarin misseri leitað vaxtarleiða til að styðja enn betur við viðskiptavini okkar og íslenskan fjármálamarkað,“ segir Þórður.

Ætluðu að stofna banka
Five Degrees sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki. Björn Hólmþórsson er einn af stofnendum Five Degrees en hann var áður yfirmaður tölvudeildar hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Hann stofnaði Five Degrees árið 2009 ásamt tveimur öðrum meðstofnendum, þar á meðal Martijn Hohmann sem hafði umsjón með rekstri IceSave í Hollandi.„Eftir fjármálahrunið ætluðum við upphaflega að stofna banka en það gekk ekki eftir enda var ekki verið að gefa út bankaleyfi í Evrópu á þessum tíma,“ segir Björn. Þá sneru stofnendurnir sér að því að þróa hugbúnað fyrir fjármálafyrirtæki og lönduðu fljótlega samningi við nýjan banka sem hollenska tryggingafyrirtækið Aegon hafði komið á laggirnar.
Réðu hönnuði IceSave
Ráðnir voru fimm fyrrverandi starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg sem höfðu komið að því að hanna og þróa netbankalausnir á borð við IceSave. Five Degrees keypti síðan tölvukerfi af þrotabúi Landsbankans í Lúxemborg og hefur vaxið hratt á síðustu árum. Velta fyrirtækisins nam meira en 12 milljónum evra, jafngildi 1,7 milljarða króna, á síðasta ári.Björn segist ánægður með kaupin á Libra enda ætli Five Degrees að ná leiðandi stöðu á markaði stafrænnar bankaþjónustu á alþjóðlegum vettvangi. Hann segir kaupverðið trúnaðarmál en staðfestir að það hlaupi á nokkrum milljónum evra, eða sem nemur nokkur hundruð milljónum króna. thorsteinn@frettabladid.is