„Þeir virðast vera að reyna að velta við hverjum steini til þess að leita hagræðingar en markaðurinn virðist ekki vera sérstaklega sannfærður um að aðgerðir þeirra dugi til,“ nefnir Sveinn.
„Fjárfestar virðast heldur telja að það verði hagstæðar ytri aðstæður, fremur en aðgerðir stjórnendanna, sem muni valda því að afkoman batni.“ Það sé stóri vandinn.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagðist á afkomufundi í fyrradag reikna með að fargjöld myndu fara upp á við. Olíuverð, sem er næststærsti kostnaðarliður félagsins, hefði enda hækkað um tugi prósenta undanfarið.
„Það er mikil umræða um það á meðal stórra félaga sem starfa á Atlantshafinu að meðalfargjöld séu of lág,“ nefndi forstjórinn.
Viðmælendur Fréttablaðsins á fjármálamarkaði segja að svo virðist sem hærri fargjöld séu forsenda þess að afkomuspá stjórnenda ferðaþjónustufélagsins fyrir árið rætist.

„Það vill væntanlega ekkert flugfélag verða fyrst – á hörðum samkeppnismarkaði – til þess að hækka verð til þess að bregðast við olíuverðshækkunum og missa þannig markaðshlutdeild á meðan önnur félög þreyja þorrann. Þetta var einfaldara mál þegar aðeins tvö flugfélög báru hitann og þungann af farþegaflutningum til og frá landinu.“
Engu að síður segir Jón Bjarki að til lengri tíma sé enn skýr fylgni milli þróunar olíuverðs og fargjalda, eins og hún birtist í vísitölu neysluverðs. Áhrifin séu umtalsverð og komi að jafnaði í gegn á nokkrum mánuðum.
Sveinn segir að ef olíuverð haldist áfram hátt sé afar líklegt að flugfargjöld muni á endanum hækka. Hve miklar hækkanirnar verði og hvort þær dugi til þess að bæta afkomu Icelandair Group sé hins vegar annað mál.