Lífið

Segist hafa skellt á tengdasoninn eftir rifrildi um sviðsettar myndir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harry Bretaprins og Meghan Markle á brúðkaupsdaginn.
Harry Bretaprins og Meghan Markle á brúðkaupsdaginn. Vísir/Getty
Thomas Markle, faðir Meghan Markle, hertogaynjunnar af Sussex, segist hafa skellt á tengdason sinn, Harry Bretaprins, eftir að þeir rifust heiftarlega í gegnum síma nokkrum dögum fyrir brúðkaup hertogahjónanna í maí síðastliðnum.

Í viðtali við Daily Mail segir Thomas að Harry hafi reiðst sér vegna sviðsettra paparazzi-mynda sem Thomas lét taka af sér í aðdraganda brúðkaupsins, m.a. við jakkafatamátun. Málið vakti mikla hneykslan en með myndunum vildi Thomas, sem er bandarískur, bæta ímynd sína í breskum blöðum.

Sjá einnig: Ljósmyndahneyksli varpar skugga á konunglega brúðkaupið

Thomas segir gagnrýni Harry eiga rétt á sér en sagði þó erfitt að sitja undir ásökunum tengdasonarins svo stuttu eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Hann segir að Harry hafi fullyrt að hefði Thomas farið að ráðum hans hefði allt farið á annan veg. Thomas segist þá hafa svarað því til að það væri kannski „betra fyrir ykkur að ég væri látinn, þá gætuð þið þóst vera sorgmædd.“ Hann hafi að því búnu skellt á Harry.

Föðurfjölskylda Meghan hefur verið henni nokkur fjötur um fót síðan hún trúlofaðist Harry Bretaprins og þá sérstaklega faðir hennar, sem ítrekað hefur rætt einkalíf hennar í fjölmiðlum. Hann sagðist nýlega hafa áhyggjur af velferð dóttur sinnar innan bresku konungsfjölskyldunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×