Fótbolti

Ekki besti undirbúningurinn fyrir nýjan þjálfara en sterk liðsheild hjálpar til

Tómas Þór Þórðarson í St. Gallen skrifar
Hörður Björgvin í leiknum gegn Króatíu á HM í sumar.
Hörður Björgvin í leiknum gegn Króatíu á HM í sumar. Fréttablaðið/Eyþór
Erik Hamrén, nýr landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, fékk aðeins 16 daga í starfi áður en að hann þurfti að velja sinn fyrsta hóp fyrir leikina gegn Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni.

Hann fékk svo eina viku til að undirbúa liðið fyrir leikinn á móti Sviss sem fram fer í dag klukkan 16.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 15.30.

Hamrén hefur talað um að hann ætli ekki að breyta of miklu hjá liðinu heldur byggja á góðum grunni. Nýjum manni fylgja þó nýjar áherslur.

„Þetta er alltaf sama landsliðið og sama skemmtunin sem að við fáum að upplifa,“ segir Hörður Björgvin Magnússon, bakvörður íslenska liðsins sem er klár í slaginn í dag eftir að glíma við smávægileg meiðsli í vikunni.

„Þegar að nýr þjálfari kemur inn þurfum við að læra meira og hlusta meira á þjálfarann. Hann kemur inn með sína taktík sem er gífurlega gott fyrir okkur. Hann sá eitthvað sem að við þurftum að laga eftir HM. Það er bara skemmtilegt að annar þjálfari sjái hvað við þurfum að bæta og við erum tilbúnir í það,“ segir hann.

Svona stuttur undirbúningur er auðvitað ekki það besta í stöðunni en þetta er líf landsliðsþjálfarans. Hann fær ekki mikinn tíma til að undirbúa sig fyrir leiki með liðinu.

„Það er enginn draumur fyrir nýjan þjálfara að koma inn og fá viku undirbúning fyrir fyrsta leik. En, við erum með sterka heild og þekkjum inn á hvorn annan. Hamrén er ekki að breyta miklu með Freysa. Hann er bara að bæta hluti,“ segir Hörður Björgvin Magnússon.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×