Í gær sást Hamrén ræða lengi eftir æfingu við Guðlaug Victor Pálsson en svo virðist sem Victor, sem er að koma aftur inn í liðið eftir nokkra fjarveru, verði í byrjunarliðinu á morgun.
„Ég fékk þarna tækifæri til að ræða við Guðlaug Victor en ég talaði svo við fimm eða sex aðra leikmenn í rútunni á leiðinni frá Austurríki til Sviss. Ég ætla að reyna að taka alla á eintal áður en þessu verkefni okkar er lokið,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi í dag.
Sögustund með Erik Hamren pic.twitter.com/FpsCSrUhDz
— Kristinn Teitsson (@kristinnpall) September 6, 2018
„Ég talaði við líka við leikmenn í dag áður en að þessi fundur byrjaði. Til dæmis Gylfa sem hefur verið lengi hluti af þessu liði.“
Hamrén ítrekar að hann er ekki mættur til að breyta öllu og vill því líka vita hvað leikmennirnir hafa að segja.
„Ég kem inn með mínar hugmyndir en ég vil ekki breyta of miklu. Þess vegna vil ég hlusta á fólkið í kringum mig og sérstaklega leikmennina. Auðvitað tek ég ákvarðanirnar og ég fer eftir minni fílósófíu en ég vil hlusta á aðra líka,“ sagði Erik Hamrén.