Danska knattspyrnusambandið hefur komist að tímabundnu samkomulagi við leikmannasambandið þar í landi og munu A-landsliðsmennirnir snúa aftur í landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Wales í Þjóðadeildinni.
Danir tefldu fram liði í vináttulandsleik í gærkvöldi sem innihélt futsal-leikmenn og leikmenn í neðstu deildum Danmerkur þar sem A-landsliðsmennirnir og allir leikmenn í efstu tveimur deildunum neituðu að spila. Ástæðan var ósætti í samningi vegna ímyndarréttar þeirra og launa vegna vinnu á vegum sambandsins í auglýsingum og fleiru þess háttar.
Samkomulagið sem er nú komið á gildir til 30. september og munu samningaviðræður um lengri samning halda áfram á mánudag.
„Það er gott fyrir danskan fótbolta og landsliðið að við getum spilað þennan mikilvæga leik í Þjóðadeildinni með okkar bestu menn,“ sagði formaður DBU í tilkynninguu sambandsins.
Leikur Danmerkur og Wales fer fram á sunnudaginn.
