Fótbolti

Hamrén: Kolbeinn hefur verið að bæta sig á hverri æfingu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er langt síðan Kolbeinn sást í landsliðsbúningnum.
Það er langt síðan Kolbeinn sást í landsliðsbúningnum. vísir/getty
Erik Hamrén landsliðsþjálfari útilokar ekki að nota Kolbein Sigþórsson í leiknum gegn Belgíu í kvöld. Hann talaði um fyrir leikina tvo í Þjóðadeildinni að nota Kolbein í fimmtán til tuttugu mínútur en framherjinn kom ekkert við sögu í slátruninni í Sviss.

Í kvöld spilar Ísland gegn Belgíu og Hamrén hefur gefið það út að hann ætli að gera breytingar á liði sínu. Kolbeinn verður þó ekki í liðinu.

„Ég sagði ekki að Kolbeinn myndi spila í báðum leikjum heldur að Kolbeinn væri klár í 15-20 mínútur. Hann spilaði ekki gegn Sviss því ég vildi skoða aðra leikmenn þá,“ sagði Hamrén og bætti við.

„Svo þarf maður að íhuga hvernig leikur er í gangi og hvaða týpur af leikmönnum maður þarf að fá á völlinn. Kolbeinn er tilbúinn og hefur verið að bæta sig á hverri æfingu. Hann er mjög spenntur fyrir því að vera með og við sjáum til hvort hann fái að spila. Hann verður þó ekki í byrjunarliðinu. Hvort hann spilar fer eftir því hvernig leikurinn þróast.“

Leikur Íslands og Belgíu í kvöld hefst klukkan 18.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í beinni textalýsingu á Vísi. Upphitun fyrir leikinn í sjóvnvarpinu hefst klukkan 17.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×