Englendingurinn Justin Rose komst í gær á topp heimslistans í golfi. Þetta er í fyrsta skipti á ferlinum sem Rose nær þessum merka áfanga.
Rose varð annar á BMW-meistaramótinu í Philadelphia í gær og það dugði til að skjóta honum í toppsætið.
Þessi 38 ára Ólympíumeistari skaust úr fjórða sætinu og á toppinn þar sem Dustin Johnson hefur setið í makindum síðustu misseri.
„Þarna er æskudraumur að rætast. Ég er ótrúlega stoltur af þessu. Ég er búinn að spila jafnt golf síðasta árið og það er að skila mér á toppinn,“ sagði Rose glaður í bragði.
Hann er fjórði Englendingurinn sem nær toppi heimslistans. Hinir eru Sir Nick Faldo, Lee Westwood og Luke Donald.

