Aðeins eru um helmingslíkur á því að þýskir bílaframleiðendur haldi leiðandi stöðu á bílamarkaði nema þeir aðlagi rekstur sinn að nýjum reglum og breyti framleiðsluháttum. Þetta fullyrðir forstjóri Volkswagen sem telur bílaiðnaðinn í Evrópu geta endað á sama hátt og gerðist vestan hafs.
Evrópsk stjórnvöld hafa lagt strangari reglur um útblástur bíla til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni og minnka loftmengun. Sumar borgir og lönd hafa jafnframt lýst því yfir að nýir dísil- og bensínbílar verði bannaðir eftir 2030, þar á meðal Ísland.
Bílaframleiðendur hafa kvartað sáran og sagt reglurnar munu skaða bílaiðnaðinn í álfunni og fækka störfum.
„Frá sjónarhóli dagsins í dag er líkurnar kannski 50-50 að þýski bílaiðnaðurinn verði enn á meðal þess besta í heiminum eftir tíu ár,“ segir Herbert Diess, forstjóri Volkswagen.
Hann telur að þýskar borgir sem reiða sig á bílaiðnaðinn og hafa blómstrað gætu farið sömu leið og bandarískar borgir eins og Detroit þar sem hart hefur verið í ári eftir að framleiðslan fluttist annað. Áætlar Diess að störfum hjá fyrirtækinu muni fækka um 14.000 fyrir 2020 þegar það eykur hlut rafbíla í framleiðslu sinni.
Ástæðan fyrir fækkun starfanna í bílaiðnaði er sú að skemmri tíma tekur að framleiða rafbíla en bíla með sprengihreyfli auk þess sem framleiðsla rafhlaðnanna fer fram annars staðar, að því er segir í frétt Reuters.
„Okkur er öllum ljóst að kerfisbreytingin mun leiða til færri starfa í bílaiðnaði í Þýskalandi. Spurningin er hversu langan tíma við þurfum til að innleiða þessa kerfisbreytingu?“ segir Diess.
Volkswagen er einn þeirra bílaframleiðenda sem urðu uppvísir að því að svindla á útblástursprófunum. Bílar sem fyrirtækið framleiddi menguðu þannig meira þegar þeir voru komnir út á götuna en í prófununum.

