Fótbolti

Portúgal í góðum málum eftir sigur á Póllandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Portúgalir fagna marki Bernardo Silva
Portúgalir fagna marki Bernardo Silva vísir/getty
Portúgal er í frábærri stöðu í riðli 3 í A-deild Þjóðadeildarinnar eftir útisigur á Pólverjum í kvöld.

Þegar öll liðin þrjú hafa leikið tvo leiki er Portúgal með fullt hús stiga, sex stig, á toppnum. Hin liðin tvö, Pólland og Ítalía, eru með eitt stg eftir að hafa gert jafntefli í fyrsta leik.

Krzysztof Piatek kom Pólverjum yfir á 18. mínútu leiksins en Andre Silva jafnaði metin eftir hálftímaleik.

Kamil Glik varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark rétt fyrir hálfleikinn sem kom gestunum frá Portúgal yfir.

Bernardo Silva fór svo langt með að tryggja Portúgal sigurinn með marki á 52. mínútu. Jakub Blaszczykowski náði að minnka muninn fyrir Pólverja en nær komust þeir ekki, lokatölur 2-3.

Pólland fær Ítalíu í heimsókn á sunnudaginn.

Í B-deild Þjóðadeildarinnar gerðu Rússar og Svíar markalaust jafntefli, Serbar unnu grannaslag við Svartfjallaland í C-deildinni og Færeyingar töpuðu heima fyrir Aserbaísjan í D-deildinni.

Úrslit kvöldsins í Þjóðadeldinni:

A deild:

Pólland - Portúgal 2-3

B deild:

Rússland - Svíþjóð 0-0

C deild:

Ísrael - Skotland 2-1

Litháen - Rúmenía 1-2

Svartfjallaland - Serbía 0-2

D deild:

Færeyjar - Aserbaísjan 0-3

Kósóvó - Malta 3-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×