Eignarhaldsfélagið VGJ, sem er að mestu í eigu Eiríks Vignissonar, hagnaðist um liðlega 228 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 58 prósent frá fyrra ári, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins.
Mestu munaði um söluhagnað hlutabréfa sem nam tæpri 201 milljón króna á árinu en arður af hlutabréfaeign félagsins var rúmlega 88 milljónir króna.
Eigið fé félagsins, sem er að 90 prósenta hluta í eigu Eiríks, framkvæmdastjóra Vignis G. Jónssonar, dótturfélags HB Granda, nam 5,4 milljörðum króna í lok síðasta árs en á sama tíma átti félagið eignir upp á 5,7 milljarða króna. Félag Eiríks er á meðal stærstu hluthafa í HB Granda, Heimavöllum og Kviku banka.
Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 500 milljónir króna í arð á þessu ári en auk Eiríks er Sigríður Eirískdóttir hluthafi í félaginu með 10 prósenta hlut.

