Handbolti

Gísli Þorgeir: Voru erfiðir tímar en er nú verkjalaus

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður og leikmaður Kiel, er allur að koma til eftir erfið meiðsli sem hlaut á síðustu leiktíð.

Gísli meiddist illa í úrslitarimmu FH gegn ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn en Gísli skipti svo frá FH yfir til þýska stórliðsins Kiel í sumar.

„Það var mikið svekkelsi að missa af öllu undirbúningstímabilinu hjá Kiel og ég náði ekki að spila neinn æfingarleik,“ sagði Gísli Þorgeir í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég missti af fyrstu leikjunum en núna er þetta allt á réttri leið. Ég er búinn að fá fleiri mínútur með liðinu og það gengur vel. Mér líður vel og ég er sáttur,“ en var þetta farið að hafa áhrif á sálina á Hafnfirðingnum unga?

„Já. Þetta voru erfiðir tímar á vissum augnablikum en ég gat alveg gefið mér það að þetta voru helvíti erfið meiðsli. Þetta er farið núna, verkurinn er farinn en ég er enn að vinna upp minn gamla skotkraft.“

„Það gengur ótrúlega vel. Maður lítur á hverja einustu æfingu sem leik og ég er að æfa með heimsklassa leikmönnum í hverri einustu stöðu. Ég er alltaf klár á hverri einustu æfingu og það er það sem skiptir máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×