Viðskipti innlent

Bráðabirgðaákvörðun vegna gjaldtöku Isavia staðfest

Sylvía Hall skrifar
Gjaldtaka við bílastæðin hófst í mars síðastliðnum.
Gjaldtaka við bílastæðin hófst í mars síðastliðnum. Fréttablaðið/Andri Marinó.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti bráðabirgðaákvörðun vegna gjaldtöku Isavia í dag en samkeppniseftirlitið ákvað að stöðva gjaldtöku á bílastæðum fyrir hópferðafyrirtæki sem aka frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í júlí síðastliðnum. 

Gjaldtakan tók gildi þann 1. mars í ár og til stóð að hækka umrædd gjöld verulega 1. september en þá átti svokallaður afsláttur á aðlögunartímabili að falla niður. 

Samkeppniseftirlitið stöðvaði gjaldtökuna vegna þess að talið var sennilegt að Isavia hefði mismunað viðskiptavinum í verðlagningu og skilmálum. Þá var talið að bið eftir endanlegri niðurstöðu gæti haft verulega skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækja sem þurftu að nýta stæðin og því var gripið til bráðabirgðaákvörðunar. 

Í tilkynningu frá samkeppniseftirlitinu segir að Isavia hafi skotið bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafist þess að hún yrði felld úr gildi. Kröfunni var hafnað og byggði áfrýjunarnefnd ákvörðun sína meðal annars á því að Isavia væri í einokunarstöðu.

Telur áfrýjunarnefnd að undirbúningur Isavia að gjaldtökuni hafi verið óvandaður og fyrirtækið ekki gert viðhlítandi grein fyrir kostnaði við að veita þjónustu við fjarstæðin. Sennilegt væri að gjaldtaka Isavia væri óhófleg og ólögmæt og því hafi verið brýnt að bregðast við henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×