Guðlaugur benti á mikilvægi þess að fá félagasamtök inn í samstarfið því með samvinnu allra aðila sem kæmu með fjölbreytta þekkingu inn í verkefni væru líkurnar auknar á því að ná settum markmiðum. Við útfærslu nýrra samstarfsleiða hefði ráðuneytið sérstaklega litið til Danmerkur og Noregs, nágrannalanda með mikla reynslu og þekkingu af samstarfi við atvinnulífið á sviði þróunarsamvinnu. „Þar hafa samstarfsmöguleikar við atvinnulífið verið skilgreindir innan faglegra ramma, svo sem samkeppnissjóða, sem eru taldir vera heppilegt fyrirkomulag til að tryggja gagnsæi og jafnan aðgang atvinnulífsins og félagasamtaka að fjármögnun verkefna.“
Leiðirnar tvær sem kynntar voru á fundinum eru annars vegar sérstakur samstarfssjóður við atvinnulífið um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hins vegar samstarf við félagasamtök með aukinni áherslu á þá möguleika sem felast í samvinnu við félagasamtök sem tengjast atvinnulífinu og samstarfi félagasamtaka við fyrirtæki um tiltekin verkefni.

Ágúst Már Ágústsson sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu kynnti áralangt samstarf ráðuneytisins við frjáls félagasamtök og vakti athygli á því að framlög til þeirra hefðu aukist hratt á síðustu árum á sama tíma og fjöldi samstarfsaðila hefði staðið í stað. Hann sagði ráðuneytið standa fyrir vinnustofu í Veröld – húsi Vigdísar, síðdegis á fimmtudag, þar sem fulltrúum félagasamtaka, sem ekki hafa mikla reynslu af samstarfi við ráðuneytið, yrði boðin fræðsla um samstarfsmöguleika félagasamtaka við ráðuneytið, með áherslu á þróunarsamvinnu.
Með þessum tveimur leiðum er vonast eftir aukinni þátttöku íslensks atvinnulífs og félagasamtaka og víðtækara samstarfi fleiri aðila í þróunarsamvinnu með það að markmiði að styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum.
