Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel ætlar að bjóða flug til Akureyrar frá og með næsta sumri og hyggst einnig selja hollenskum ferðamönnum flugferðir þangað næsta vetur. Fréttir um að uppsetning ILS-búnaðar yrði lokið næsta sumar á Akureyrarflugvelli hafði mikil áhrif á ákvörðun ferðaskrifstofunnar. Framkvæmdastjóri Voigt Travel segir ferðamenn vilja sjá meira en bara Gullna hringinn.
„Þessu fögnum við og þetta mun hafa jákvæð áhrif á allt Norðurland. Þessi áform endurspegla líka þörfina á uppbyggingu flugvallarins,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
„Við þurfum að dreifa ferðamönnum betur um landið með því að opna fleiri gáttir inn í landið, bæði til að nýta betur þá fjárfestingu sem til er í ferðaþjónustu vítt og breitt um landið auk þess að vernda viðkvæma íslenska náttúru.“
Ferðaskrifstofan Super Break á Bretlandseyjum er nú að hefja annan veturinn í áætlunarferðum til Akureyrar en vel hefur gengið hjá þeim að selja ferðir norður. Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn á Norðurlandi hafa leitt verkefnið og nú standa yfir viðræður við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við Voigt Travel og þjónustu við farþega.
Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með um þriggja áratuga reynslu af ferðum á norðurslóðir, þá helst til Skandinavíu. Nú er stefnan sett á að stækka svæðið og bjóða upp á Akureyri sem kost bæði að sumri og vetri.
„Þó að þetta sé minna þekktur áfangastaður á hinu vinsæla Íslandi, þá þýðir það í raun að hann er meira aðlaðandi í augum ferðamannsins sem vill upplifa meira en Gullna hringinn. Slíkt passar mjög vel við stefnu Voigt Travel, því markmið okkar er að viðskiptavinir okkar kynnist betur hinum óþekktu svæðum í Norður-Evrópu með flugi beint frá Hollandi,“ segir Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel.
Ferðaþjónustuaðilar eru mjög ánægðir með þessa viðbót sem mun styrkja heilsársferðamennsku á Norðurlandi og dreifa ferðamönnum betur um landið.
„Hér er afrakstur vinnu síðustu ára að koma í ljós. Það er ljóst að beint millilandaflug á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar hefur haft jákvæð áhrif á þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og vakið athygli fleiri ferðaskrifstofa og flugfélaga á áfangastaðnum,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N.
Hollensk ferðaskrifstofa býður beint flug norður til Akureyrar
