Ráðherrann, Khalid al-Falih, sagði í samtali við fréttamenn að loknum fundi OPEC-ríkjanna um helgina að líklega þyrfti að minnka framleiðsluna um næstum milljón tunnur á dag. Olíuverð hefur lækkað mikið síðustu vikur eftir að hafa náð fjögurra ára hámarki í lok september. Þá kostaði tunnan rúmlega 80 dali en hefur síðan fallið niður fyrir 70.
Ummæli orkumálaráðherrans urðu til þess að snúa við þessari þróun. Olíutunnan er nú föl á rúman 71 bandaríkjadal og allt virðist stefna í að verðhækkunin verði sú mesta í rúman mánuð.
Sjá einnig: Skörp lækkun á olíuverði ekki skilað sér
OPEC-ríkin féllust á það í sumar að auka framleiðslu sína um rúmlega milljón tunnur með það fyrir augum að slá á fyrirséða verðhækkun. Í upphafi síðasta mánaðar voru uppi háværar vangaveltur um áhrif viðskiptaþvingana Bandaríkjanna á Íran og óttuðust greinendur að olíutunnan kynni að að rjúfa 100 dala múrinn.

Orkumálaráðherra Sádí-Arabíu minntist einmitt á þessar undanþágur Bandaríkjanna í máli sínu í gær. „Viðskiptaþvinganirnar höfðu ekki jafn mikil áhrif á markaðinn og spár gerðu ráð fyrir,“ sagði Falih.
„Við munum þurfa að minnka framleiðsluna um næstum 1 milljón tunna sé miðað við framleiðsluna í október. Það er samhljómur um að það verði að gera allt til þess að ná jafnvægi á markaðnum.“
Greinendur útiloka ekki að lækkunarhrinan kunni að vera búin og að væntanlegar aðgerðir OPEC-ríkjanna komi til með að slá á frekari sveiflur á næstunni. Rétt er þó að taka fram að engin formleg ákvörðun um breytingar á olíuframleiðslu hafa verið teknar. Það verður líklega ekki gert fyrr en á næsta fundi OPEC-ríkjanna, sem fram fer í Vínarborg þann 6. desember næstkomandi.