Lífið

Þetta eru sigurörin mín

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
„Ég er reyndar öll orðin hvít núna,“Elísabet Ronaldsdóttir sem gekkst undir svokallaða ónæmismeðferð við krabbameini.
„Ég er reyndar öll orðin hvít núna,“Elísabet Ronaldsdóttir sem gekkst undir svokallaða ónæmismeðferð við krabbameini. Mynd/Máni Hrafnsson
Það er blámorgunn í Vancouver. Elísabet Ronaldsdóttir fær sér morgunbollann á meðan hún ræðir góðar fregnir af heilsu sinni við blaðamann í Reykjavík. Elísabet var greind með fjórða stigs krabbamein fyrir um það bil ári. Húðkrabbamein (melanóma) sem hafði dreift sér í bris. Hún er nú laus við meinið eftir að hafa gengist undir ónæmismeðferð hjá einum færasta sérfræðingi Bandaríkjanna í slíkri meðferð, dr. Omid Hamid.

„Ég er í skýjunum, það er erfitt að finna orð yfir það hversu hamingjusöm ég er að fá þessa niðurstöðu,“ segir Elísabet.

„Það eru svo margir þættir sem koma að bata mínum. Einn er að hafa réttar tryggingar, annar er að ég á vini sem fundu lækninn minn, dr. Hamid, og fengu hann til að taka við mér.

Ég veiktist alvarlega í Vancouver í Kanada og var flutt þaðan til dr. Hamid á Cedars-Sinai-sjúkrahúsið í Los Angeles. Ég hef sem betur fer sjaldan farið á sjúkrahús. Helst til að eiga blessuð börnin mín en fór reyndar í litla aðgerð á Íslandi þar sem eitlar voru fjarlægðir, það var nokkrum mánuðum áður en ég veiktist fyrst. Það var einföld aðgerð og ekkert mál. En svo tók þetta sig upp og ég varð svona hræðilega veik,“ segir Elísabet.



„Dauðinn er ekki eitthvað sem ég þarf að hræðast og þá veit ég það,“ segir Elísabet. Mynd/Máni Hrafnsson

Eins og í vísindaskáldsögu

Dr. Hamid er stórkostlegur sérfræðingur og virtur um allan heim fyrir það sem hann er að gera hjá The Angeles Clinic. Hann sérhæfir sig í melanómakrabbameini en vegna þess hve vel gengur í þessum ónæmisfræðum er hann líka farinn að meðhöndla fólk með lungna-, brjóst- og heilakrabbamein, svo dæmi séu tekin,“ segir Elísabet.

„Hann er sérstök týpa. Ég vissi það um leið og ég hitti hann að ég gæti treyst honum. Stundum reynir maður að hafa einhver ítök en ég hef ekki einu sinni yfirborðsþekkingu á þessum fræðum. Ég var því fegin og þakklát að gefa honum stjórnina,“ segir Elísabet.

Hún segist aldrei hafa komið inn á viðlíka sjúkrahús og Cedars-Sinai í Los Angeles. „Þetta var eins og geimstöð. Allt svo glæsilegt. Stundum fannst mér læknarnir vera eins og hólógrömm. Eins og ég væri í vísindaskáldsögu. Dr. Hamid kynnti mig þar fyrir persneska hernum sínum eins og hann kallaði læknateymið.

Á hverjum morgni hitti ég sex eða sjö lækna. Ég hitti til dæmis skurðlækni á hverjum morgni, þó að það stæði aldrei til að skera mig. Ég var ekki með skurðtækt mein. Samt gáfu allir læknarnir sér tíma til að fylgjast með. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað það voru mikil forréttindi að hljóta þessa meðferð,“ segir hún.

„Þegar dr. Hamid sagði mér að ég þyrfti að fara í jáeindaskanna, þá var ég bara í huganum farin í ferðalag. Reynslan að heiman er kostuleg þar sem maður þarf að ferðast milli landa í slíkan skanna. En svo var ég bara komin í skannann eftir korter. Allar rannsóknir voru gerðar strax og án umstangs. 





Þróunin er stórkostleg

„Það væri mikil gæfa ef við á Íslandi tækjum þá ákvörðun að forgangsraða pening inn í heilbrigðiskerfið og veita fjármagni í nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir. Það er ekki eins og okkur skorti snillingana og í krafti smæðar okkar og ríkidæmis ættum við að geta haldið gangandi heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða fyrir alla Íslendinga. Eitthvað sem við öll gætum verið stolt af. Ég er samt alfarið á móti einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum og alls ekki á leiðinni í framboð,“ segir Elísabet og skellihlær.

Meðferðin sem Elísabet hlaut hefur vakið heimsathygli. „Þróunin er stórkostleg, þeir eru að fá Nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt til læknavísinda. En á sama tíma veit ég að það er mjög persónubundið hvernig fólk tekur meðferðinni og líka hvernig henni er beitt. Ég fór til dæmis í stóra genarannsókn áður en meðferð hófst þar sem dr. Hamid reyndi að greina hvaða lyf myndu henta mér best.

Eins og ég er himinlifandi, þá er ekkert sem segir að einhver sem fær sömu meðferð fái sömu niðurstöðu. Persneski læknaherinn minn og dr. Hamid eru í skýjunum yfir þessu. Ég losnaði svo hratt við þetta. Nú er bara verið að trappa mig niður af sterunum. Ég hlakka til að sjá betur í andlitið á mér, ég er auðvitað svolítið bólgin ennþá. Eins og fullt tungl,“ segir hún og hlær.





Elísabet klippti Deadpool 2 í veikindinum.

Sprenging í ­tilfellum

Elísabet segir að þó að hún hafi verið greind með húðkrabbamein hafi aldrei fundist á henni blettur.

„Aldrei grunaði mig að ég myndi fá húðkrabbamein. Ég er aldrei í sól og það fannst aldrei illkynja blettur. En læknarnir sögðu mér frá því að það hefði orðið sprenging í tilfellum og það er vegna þess að ósonlagið er að þynnast,“ segir Elísabet og segir skaðlega geisla eiga greiðari leið að fólki. „Þú átt að vera með sólarvörn þó að það sé mið nótt. Þó að það sé rigning. Það er eitthvað sem við verðum að skoða líka. Við getum ekki bara meðhöndlað krabbamein, við verðum að verjast því líka. Auðvitað er besta leiðin að fylgjast með blettum. En þessu finnst mér vert að vara við. Ósonlagið er sérstaklega þunnt yfir Íslandi. Fyrst þegar ég veiktist þá hugsaði ég með mér að nú væri sólin í Hollywood að drepa mig. En líklega voru það geislarnir heima.“

Elísabet er einn færasti og farsælasti kvikmyndaklippari landsins og þegar hún veiktist stóð hún á hátindi ferils síns.

Í veikindunum klippti hún stórmyndina Deadpool 2 og nú þegar hún er að ná fullri heilsu er hún tilbúin að taka aftur að sér stærri verkefni.

„Ég trúi því að það hafi á vissan hátt hjálpað mér að hafa fulla vinnu samhliða meðferðinni. Því ég hafði um eitthvað annað að hugsa en krabbamein. Þegar ég útskrifaðist af sjúkrahúsinu í Los Angeles var mér boðið að koma aftur til vinnu á Deadpool sem ég gerði og kláraði verkefnið. Það fannst mér gott. Ég þurfti síðan að hafna fullt af spennandi verkefnum vegna þess að ég var bundin í meðferð í borginni. En ég hef verið nógu lukkuleg til að fá smærri verkefni til að halda mér upptekinni í gegnum meðferðina. Ég er náttúrulega algjör vinnualki,“ segir hún og hlær. „Það er alveg deginum ljósara. Mér finnst svo gaman í vinnunni. Allir sem hafa fengið krabbamein finna fyrir því hvað þetta er mikil árás á líkamann. Hvað maður missir mikla stjórn á lífi sínu. Ég held það sé engin ein leið til að takast á við það. Það er persónubundið hvað hentar fólki í þessum aðstæðum. Ég hef þá barnslegu trú að ég geti nært vissar aðstæður með því að hugsa of mikið og tala mikið um þær, og er því fegin að hafa haft annað að hugsa um en þessi veikindi,“ segir Elísabet.





Sátt við sigurörin

„Í ágúst ákvað ég að fara aftur til Vancouver í verkefni á vegum Netflix,“ segir Elísabet og segir það hafa verið góða tilfinningu að takast á við slæmar minningar sem hún átti frá borginni vegna veikinda sinna þar.

Elísabet segir stuðning ástvina sína mestu gæfu. Máni Hrafnsson, elsti sonur hennar, kom til hennar og hefur fylgt henni og aðstoðað í meðferðinni.

„Sonur minn og börnin mín öll hafa verið eins og klettur. Máni lagði allt til hliðar og kom til að vera hjá mér. Ég er tossi og aldrei dettur mér í hug að neitt slæmt komi fyrir. Bara það að hann hafi komið að sortera allt í sambandi við tryggingar og annað var svo ótrúlega mikilvægt. Ég hefði aldrei getað gert þetta án hans. Svo var hann bara með mér í marga mánuði og hann er hér einmitt núna,“ segir Elísabet og kallar á son sinn sem gægist á tölvuskjáinn og heilsar blaðamanni. Það er óhætt að segja að mæðginin séu lík.

„Já, við hlæjum oft að því hversu lík við erum,“ segir Elísabet. „Ég er reyndar öll orðin hvít núna. Með hvítar augnabrúnir og augnhár. Mér fannst þetta ómögulegt í fyrstu en þegar dr. Hamid sagði mér hvað hann væri glaður að sjá mig svona – það þýddi að meðferðin væri að virka vel – þá tók ég útlitið í sátt. Þetta eru sigurörin mín.“

Enginn ótti

Hún segist hafa uppgötvað í veikindunum að hún væri ekki hrædd við dauðann. „Lífið er fallvalt og allt getur gerst. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ég ekki breytt manneskja eftir þetta allt saman. Ég upplifi ekki að ég hafi stærri tilgang í lífinu. Ég varð ekki fyrir trúarlegri upplifun. En dauðinn er ekki eitthvað sem ég þarf að hræðast og þá veit ég það. Ég fann ekki fyrir neinum ótta. Ég hafði auðvitað áhyggjur af börnunum. En nú er bara orðið bjart.“

Hún segir mikilvægt að lifa ekki í ótta við að fá krabbamein. „Nei, það gengur ekki að lifa í ótta. En það er gott að vera skynsamur. Vera meðvitaður um hætturnar. Hugsa ágætlega um heilsuna. Ég er ekkert líkamsræktarnörd en meðferðin gekk betur því ég var í góðu formi.

Hlutir geta dunið yfir og það er ágætt að vera undir það búinn,“ segir Elísabet.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×