Lífið

Þegar langamma vildi drepa pabba

Kristjana B Guðbrandsdóttir skrifar
Garpur I. Elísabetarson kvikmyndagerðarmaður frumsýndi myndina Frú Regína í vikunni. Myndin fer í sýningu á RÚV á nýju ári.
Garpur I. Elísabetarson kvikmyndagerðarmaður frumsýndi myndina Frú Regína í vikunni. Myndin fer í sýningu á RÚV á nýju ári. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Saga fjöl­skyldu minnar er efni­viður í miklu meira en þessa mynd. Þetta er bara byrjunin,“ segir Garpur Elísa­betar­son um nýja stutt­mynd sína, Frú Regínu. Myndin var sýnd á sér­stakri boðs­sýningu í Bíó Para­dís í vikunni en verður á dag­skrá RÚV fljót­lega á nýju ári.

Myndin fjallar um lang­ömmu Garps, Elísa­betu Engil­ráð, sem Krist­björg Kjeld leikur.

„Lang­amma mín lagði á ráðin um að drepa föður minn. Hún var ekki sátt við sam­band hans við móður mína og hafði miklar á­hyggjur af neyslu þeirra beggja og ó­gæfu sem henni tengdist,“ segir Garpur.

For­eldrar Garps eru Elísa­bet Jökuls­dóttir skáld og Ingi Bærings­son á­fengis­ráð­gjafi. Þau áttu saman Garp og tví­bura­bróður hans Jökul. Á þeim tíma sem lang­amma þeirra lagði á ráðin voru þeir bræður ó­fæddir.

Garpur og Kristbjörg á setti. "Ég er líka þakklátur Kristbjörgu Kjeld fyrir að hafa tekið að sér hlutverk Regínu. Frá því að ég fór að þróa verkefnið kom enginn annar til greina.“
Hélt þetta væri drauga­saga

„Ég hélt alltaf að þetta væri bara ein­hver drauga­saga. Að lang­amma mín hefði haft það í hyggju að drepa pabba minn. Svo þegar ég fór að heyra þessa sögu oftar og oftar héðan og þaðan úr fjöl­skyldunni, og að hún vildi draga bræður mömmu inn í málið, á­kvað ég að spyrja nánar út í þetta. Út frá þeim svörum sem ég fékk skrifaði ég söguna og seinna hand­ritið,“ segir Garpur frá.

„En auð­vitað gerist ekki neitt. Pabbi varð edrú þegar við vorum fjögurra ára gamlir og mamma fá­einum árum seinna. Pabba og lang­ömmu varð þá vel til vina,“ segir Garpur.

„Það er ó­hætt að segja að konur í minni ætt séu nokkuð harðar af sér. Ég þekkti lang­ömmu sem ljúfa konu og það að hún hefði viljað ganga svona langt í von um að bæta líf dóttur­dóttur sinnar og okkar kom mér á ó­vart,“ segir hann.

Brösug skólaganga

Garpur segir líf þeirra bræðra í æsku hafa markast af líðan og heilsu for­eldra þeirra. Skóla­gangan var til að mynda ansi brösug.

„Við erum svo litlir þegar það versta er að ganga yfir. Ég man ekki mikið eftir neyslu og á­fengi á heimilinu. Ég veit samt alveg í hvaða um­hverfi við vorum, við bræður. En við fæðumst svona inn í endann á brjál­æðinu öllu saman. Mamma og pabbi skilja og mamma fór í með­ferð þegar við vorum níu ára gamlir. Ég tengi ekki endi­lega á­fengi við allt sem gekk á í okkar lífi.

Mamma var greind með geð­hvörf á þessum tíma. Við vissum aldrei að hún væri veik. Það var oft verið að segja það við okkur bræður. En við skildum það ekki. Skildum ekki hvers vegna hún kom sér ekki fram úr rúminu í marga daga. Eða hvers vegna hún hvarf stundum,“ segir Garpur sem segir þá bræður hafa bundist sterkari böndum en ella vegna að­stæðna. Þeir sáu oft um sig sjálfir og þótt það hafi stundum verið erfitt þá vildu þeir fæstu breyta.

„Við áttum hvor annan að. Það er það sem ég veit að kom okkur í gegnum þetta þegar ég lít til baka. En svo skiptu margir sér af okkur. Öll okkar ár í Haga­skóla hringdi ritarinn á skóla­skrif­stofunni í okkur til að vekja okkur og mæta í skólann. Svo mættum við bara ein­hvern tímann um há­degis­bil,“ segir Garpur og hlær.

„Við vorum líka mikið í slags­málum, áttum í úti­stöðum við kennara og jafn­vel ryskingum. Ég var oft hjá skóla­stjóranum. Stundum oft í viku,“ segir hann.

Hann segir marga furða sig á því hversu vel þeim bræðrum hafi gengið í lífinu þrátt fyrir erfið­leikana. „Já, margir spyrja okkur að þessu, þið drekkið ekki, reykið ekki. Stundið heil­brigt líferni. Hvernig rættist eigin­lega úr ykkur?

Ég get auð­vitað ekki svarað því. En ég hef samt mínar hug­myndir um það. Þótt mamma sé geð­veik og pabbi alkó­hól­isti þá gerðu þau sitt og tókust á við vanda­mál sín. Við vissum að við vorum elskaðir. Mamma hefur alltaf gefið alla sína ást, allan sinn kær­leika. Allt sem hún átti, alveg sama hvað hún var lasin.

Og þótt við höfum ekki alist upp hjá pabba þá var hann oft til staðar. Hann er einn vitrasti maður sem ég þekki og hefur hjálpað mörgum síðan hann varð edrú. Við gátum leitað til hans. Við bárum ótta­blandna virðingu fyrir honum. Ef ég og bróðir minn höfðum gert eitt­hvað af okkur, þá var okkur sama ef það var hringt í mömmu til að láta hana vita. En annað gilti ef það var hringt í pabba,“ segir Garpur.

Þurftu að ræða hlutina

„Hann öskraði ekki á okkur. Hann lét okkur ræða það sem við höfðum gert. Og það er nú einu sinni þannig að ef maður gerir eitthvað heimskulegt og þarf að útskýra það fyrir einhverjum öðrum, þá kemur maður aldrei vel út úr því,“ segir Garpur og hlær.

„Við sögðum stundum við pabba: Nei, plís, pabbi, ekki ræða málin. Ég þoldi þetta ekki. En þetta virkaði. Og nú geri ég það sama fyrir dætur mínar. Ég skamma þær ekki, ég ræði málin,“ segir hann.

Garpur segir að þótt heimilisaðstæður þeirra bræðra hafi ekki verið góðar hafi margir í þeirra nærsamfélagi verið þeim góðir. „Það var net fólks í kringum okkur sem vildi hjálpa okkur. Við æfðum íþróttir, eiginlega allar þær sem við komumst í. Í kringum þær voru margir sem vildu okkur vel. Við fundum alveg að við vorum ekki einir,“ segir hann frá.

Aðeins Kristbjörg kom til greina

Það eru þrjú ár liðin síðan Garpur ákvað að setja verkefnið af stað.

„Ég fór á fund með Þórhalli Gunnarssyni hjá Sagafilm og sagði honum þessa sögu. Hann sagði einfaldlega: Garpur, ef þú getur komið þessu í handrit, þá gerum við þetta bara. Ekki spurning. Ég gerði það og lærði mikið af ferlinu.

Þegar vinnslan hófst hafði fólk samband við mig og bað um að fá að taka þátt. Fyrir það er ég þakklátur. Ég er líka þakklátur Kristbjörgu Kjeld fyrir að hafa tekið að sér hlutverk Regínu. Frá því að ég fór að þróa verkefnið kom enginn annar til greina. Ég hringdi í hana og kynnti mig og bauð henni að senda henni handritið í tölvupósti. Hún svaraði: Nei, Garpur. Þú kemur með það,“ segir Garpur og hlær að minningunni.

„Hún hringdi svo strax í mig daginn eftir og sagðist vera til og þá fór boltinn að rúlla,“ segir hann.

Garpur segir fleiri verkefni í deiglunni. „Myndin er aðeins sautján mínútur. Það er það sem var erfiðast í þessu ferli. Að skera niður efnið í þessa lengd því sagan er svo stór og mikil. Þetta er ekki bara saga langömmu heldur líka bræðranna, mömmu og okkar. Ég sé fyrir mér að gera meira með það í framtíðinni.“

Frú Regína var sýnd fyrir fullum sal í Bíó Paradís á fimmtudag, og hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá frumsýningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×