Menning

Vildi sýna list langafa

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigríður Svana Pétursdóttir gerir myndum langafa síns Guðmundar Viborg hátt undir höfði á heimili sínu.
Sigríður Svana Pétursdóttir gerir myndum langafa síns Guðmundar Viborg hátt undir höfði á heimili sínu. Fréttablaðið/Ernir
„Mig langaði svo að vita meira um manninn sem málaði myndirnar sem fundust á háaloftinu heima. Þetta byrjaði þannig,“ segir Sigríður Svana Pétursdóttir, sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Myndir á háalofti. Þar lýsir hún viðburðaríkri ævi langafa síns, Vestfirðingsins Guðmundar Viborg Jónatanssonar gullsmiðs sem síðustu ár sín bjó í kjallara hússins Hólavelli við Suðurgötu í Reykjavík, í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar. Þegar Sigríður Svana var um fermingu flutti hún að Hólavelli sjálf og í formála bókarinnar lýsir hún því sem ævintýri, því háaloftið hafi geymt svo margt forvitnilegt, meðal annars bunka af olíumálverkum eftir langafa hennar. Hún kveðst hafa vitað um muni sem hann hafði skorið út og smíðað úr gulli og silfri en málverkin hafi verið ný fyrir henni og stungið nokkuð í stúf við annað.

Mynd úr bókinni af Guðmundi Viborg. Hana tók Ingimundur fiðla einhvern tíma á árunum 1910-1920. Mynd/Skógasafn
Þess má geta að bókin geymir fjölda mynda bæði af smíðisgripum Guðmundar og málverkum. „Ég vildi sýna hversu mikill listamaður hann var,“ segir Sigríður Svana. „Hann lét ekkert hindra sig í listsköpuninni þó hann væri ómenntaður í henni fyrir utan nokkra mánuði sem hann var hjá Sumarliða Sumarliðasyni í Æðey að læra tökin á gullsmíðinni. Sú kunnátta entist honum út ævina.“

Þó Sigríður Svana hafi fundið kassa með skrifum langafa síns segir hún hafa verið ótrúlega snúið að afla heimilda um manninn sjálfan sem var þó uppi til 1936. „Það voru ekki margir til frásagnar um langafa, svo ég þurfti að grafa nánast allt upp. Bókin varð því til eftir mikið grúsk og yfirlegu á Þjóðskjala- og Landsbókasafni, þar sem ég fann mörg bréf sem nýttust mér.“

Sigríður Svana segir bæði Guðmund sjálfan og Helgu Bjarnadóttur, konu hans, hafa skrifað Torfa Bjarnasyni í Ólafsdal en bréfasafn hans geymi um ellefu þúsund bréf og sé eitt það stærsta á landinu. „Það er í raun ótrúlegt hversu margir skrifuðu Torfa, hvaðanæva, um sín mál, hvort sem þau snerust um að koma rollum milli bæja eða leysa hjónabandsvanda. Torfi var hálfbróðir Helgu og vinur hjónanna beggja, þau leituðu til hans því eitthvað skorti upp á hamingjuna,“ lýsir Sigríður Svana og segir þau hjónin hafa skilið.

„Gufuskipinu sem langafi var vélstjóri á var lagt, stórgrósserinn sagði bara: „Þetta skip siglir ekki meira.“ Þar með var langafi orðinn atvinnulaus en fékk vinnu hjá baróninum á Hvítárvöllum og fór þangað. Helga átti að koma á eftir með börnin en af því varð ekki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×