„Stuðningur við uppbyggingu í vatns- og hreinlætismálum, í samræmi við innlenda staðla fyrir heilsugæslustöðvar og skóla, mun stuðla að heilsusamlegri aðstöðu fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk, nemendur og kennara,“ segir Unnur Orradóttir Ramette sendiherra Íslands í Úganda. „Við erum þess vegna ánægð með að framlag okkar Íslendinga nýtist til að draga úr barnadauða og koma í veg fyrir vatnsborna sjúkdóma á þessu svæði,“ bætir hún við.

„Markmið UNICEF er að bæta salernisaðstöðu og tryggja sjálfbærni í vatns- og hreinlætismálum á svæðum sem njóta takmarkaðrar þjónustu, meðal annars í skólum og heilsugæslustöðvum. Fjárfesting í bættri þjónustu á þessum sviðum skapar betri aðstæður til náms og heilsusamlegri aðstæður fyrir konur og börn á heilsugæslustöðvum,“ segir Dr. Doreen Mulenga, fulltrúi UNICEF í Úganda. „Við erum þakklát fyrir stuðninginn frá ríkisstjórn Íslands sem kemur til með að draga úr vatnsbornum sjúkdómum meðal flóttabarna í þessum samfélögum,“ bætir hún við.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.