Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - ÍR 24-24 │ ÍR jafnaði er þrjár sekúndur voru eftir

Einar Kárason skrifar
Bergvin og félagar náðu í stig í Eyjum í kvöld.
Bergvin og félagar náðu í stig í Eyjum í kvöld. vísir/ernir
Frítt var í höllina í kvöld í boði Ísfélags Vestmannaeyja þegar heimamenn í ÍBV tóku á móti ÍR. Þétt var setið og stemmning til fyrirmyndar. Fyrir leik heiðruðu leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir gestir minningu Kolbeins Arons Arnarssonar, markvarðar ÍBV, en Kolbeinn var bráðkvaddur þann 24.desember síðastliðinn. Fyrirmyndar íþróttamanns og hvers manns hugljúfa, sem átti stóran þátt í upprisu handboltans í Eyjum, var minnst með mínútu lófaklappi.

Leikurinn fór fjörlega af stað og skoruðu heimamenn fyrstu 2 mörk leiksins við mikil fagnaðarlæti í stúkunni. Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, tók þá leikhlé strax á 3.mínútu leiksins og talaði sína menn til sem komu aldeilis til baka. ÍR tóku forustu eftir 8.mínútur og héldu henni út hálfleikinn með hjálp Stephen Nielsen sem var að mæta á sinn gamla heimavöll. Mest náðu gestirnir 5 marka forustu í fyrri hálfleik en þegar flautað gólaði var staðan 11-14.

ÍBV mættu öflugri til leiks í síðari hálfleiknum og hægt og rólega snéru við blaðinu. Þegar um 40.mínútur voru liðnar náðu þeir að jafna metin í 16-16 og svo í 18-18 fimm mínútum síðar. Eyjamenn skoruðu svo næsta mark og því komnir yfir í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútum leiksins.

Heimaliðið hélt forustu nánast það sem eftir lifði leiks en þegar tæplega 2.mínútur voru eftir voru þeir 2 mörkum yfir. ÍR skoraði þá næsta mark og ljóst var að síðustu sekúndur leiksins yrðu æsispennandi sem þær svo sannarlega voru. Þegar 13.sekúndur voru eftir fengu ÍR boltann og keyrðu á vörn Eyjamanna og komu boltanum í netið og staðan því jöfn 24-24 og 3.sekúndur eftir. Kristján Örn Kristjánsson náði lokaskoti leiksins og að koma boltanum í netið en flautan varð fyrri til og því taldi markið ekki.

Niðurstaðan því 24-24 jafntefli í hörkuleik.

Af hverju fór sem fór?

Tvö öflug lið að etja kappi og erfitt var að segja til um hvort liðið myndi taka þetta. Raunin varð síðan sú að liðin nældu sér í 1 stig hvort.

Hvað gekk illa?

Skyttur Eyjamanna áttu ekki sinn allra besta dag en Kristján Örn og Fannar Þór Friðgeirsson skoruðu 2 mörk samtals. Liðunum gekk einnig illa að skilja hvort annað að, enda tvö hörkulið sem hvorugt ætlaði að leggjast á hliðina. Dómaraparið virtist einnig í vandræðum með leikinn sem spilaður var af hörku og áræðni. Mörg flaut mögulega sekúndum of snemma.

Hverjir stóðu uppúr?

Í liði Eyjamanna voru Hákon Daði Styrmisson, Dagur Arnarsson og Kári Kristján Kristjánsson atkvæðamestir. Hákon með 7 mörk og Dagur og Kári 5 hvor. Haukur Jónsson kom svo virkilega öflugur inn í lið ÍBV með 10 bolta varða, 50% vörslu.

Hjá ÍR voru Sturla Ásgeirsson og Björgvin Hólmgeirsson öflugir með 5 mörk og þar á eftir Pétur Árni Hauksson með 4. Stephen í markinu gerði gömlu samherjum sínum oft lífið leitt með góðum vörslum. Hann varði samtals 13 skot og þar af 2 vítaköst.

Hvað gerist næst?

ÍBV eiga alvöru verkefni fyrir höndum þegar þeir mæta nágrönnunum á Selfossi ytra í Suðurlandsskjálfanum.

ÍR taka á móti Valsmönnum.

Kristinn: Grálegt? Miklu meira

,,Grátlegt? Miklu meira en grátlegt,” sagði Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir leik í kvöld. ,,Við gloprum sigrinum frá okkur í restina.”

,,Við vorum aðeins of trektir í fyrri hálfleik. Tókum slæmar ákvarðanir sóknarlega og vorum að flýta okkur sem kostar okkur það að gefa mótherja bolta.”

,,Vörnin okkar var góð í leiknum, allan tímann. Við töluðum um það í hálfleik að laga þetta og gerðum það og komum okkur í mjög góða stöðu til að vinna þennan leik og vorum með gott tak á þeim. En því miður tókst okkur ekki að landa því,” sagði Kristinn að lokum.

Bjarni: Stoltur af strákunum

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var nokkuð sáttur að leikslokum. ,,Ég er bara stoltur af strákunum. Við duttum niður í seinni og lentum í vandræðum með frábæra Eyjavörn með Magga Stef í algjöru toppstandi.”

,,Við missum þá tvistar 2 mörkum frá okkur en við höldum alltaf trúnni og héldum haus. Við létum þá ekki ná upp allri stemmningunni og valtra yfir okkur sem hefði getað gerst og þeir eru þekktir fyrir. Við náum alltaf að koma okkur aftur inn í leikinn. Mér fannst haus og þrautsegja að ná í þetta stig.”

Eyjamenn skoruðu fyrstu 2 mörk leiksins en svo tóku ÍRingar við. ,,Við vorum greinilega bara með Herjólf í hausnum á okkur þegar við byrjum. Við vorum bara arfaslakir svo ég tók bara timeout eftir 2 eða 3 mínútur. Bara svona til að aðeins vekja menn. Þá spiluðum við okkar leik og vorum bara góðir.”

,,Við vorum að gera okkur seka um alltof mikið af töpuðum boltum sem má hreinlega ekki á móti þessu liði. Þetta er náttúrulega ógnarsterkt lið með eina bestu vörn landsins finnst mér. Ég er bara ótrúlega stoltur að koma hingað og ná í stig,” sagði Bjarni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira