Umfjöllun og viðtöl: Grótta - FH 20-27 │Mikil harka í sigri FH

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Ágúst Birgisson
Ágúst Birgisson vísir/bára
FH vann góðan sjö marka sigur á Gróttu í kvöld, 20-27. FH leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 11-15. 

Það dró til tíðinda strax í upphafi leiks þegar Arnar Jón Agnarsson, leikmaður Gróttu, fékk beint rautt spjald. Þetta var hans fyrsti leikur fyrir Gróttu en hann skrifaði undir við félagið eftir áramót. Arnar braut klaufalega á Jakobi Martin Ásgeirssyni, leikmanni FH, og dómarar leiksins mátu það svo að gefa Arnari beint rautt spjald og þá bláa fylgdi í kjölfarið. 

Leikurinn var hægur í upphafi en gestirnir byrjuðu betur og staðan eftir 10 mínútur, 2-5. Eftir það kom gott áhlaup frá Gróttu sem jafnaði leikinn og jafnaði eftir 5-2 kafla, staðan því jöfn 7-7. FH náði svo aftur forystu áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks og var staðan að honum loknum, 11-15, FH í vil. 

Gestirnir mættu grimmari til leiks í seinni hálfleik og náðu fljótlega átta marka forystu, 12-20. Einar Jónsson, þjálfari Gróttu, tók þá leikhlé og heimamenn gáfu aðeins í en eltu það sem eftir lifði leiks. Jóhann Birgir Ingvarsson, leikmaður FH, fékk beint rautt spjald þegar 5 mínútur voru til leiksloka eftir að hafa slegið Ásmund Atlason í andlitið, það var þá annað rauða spjaldið í leiknum en mikill hiti var í leikmönnum liðanna. Sjö mörk skyldu liðin að þegar flautað var til leiksloka, 20-27. 

Af hverju vann FH?

FH er að öllu leyti betra lið en Grótta og þeir voru betri á öllum vígstöðvum í kvöld. Heimamenn gáfu þeim þó leik með góðum áhlaupum náðu þeir að jafna leikinn en misstu það svo alltaf aftur niður. 

Hverjir stóðu upp úr?

Ásbjörn Friðriksson hefur verið yfirburðar maður í liði FH og það var engin breyting á því í kvöld. Hann skoraði 10 mörk í fyrri hálfleik og var svo markahæstur í liði FH með 12 mörk. 

Grótta átti ekki góðan leik en Bjartur Guðmundsson og Alexander Jón Másson voru markahæstir með 4 mörk

Hvað gekk illa? 

Leikur Gróttu gekk heilt yfir illa í kvöld, þeir reyndu hvað þeir gátu en þetta var of erfitt. FH gekk illa að halda stöðuleika, þeir misstu leikinn stundum niður en aldrei þó nógu langt til þess að ógna sigrinum.

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð er mikilvægur leikur hjá Gróttu er liðið mætir KA, lífs nauðsynlegt fyrir Gróttu að ná í stig þar. FH fer svo í Garðabæinn þar sem þeir mæta Stjörnunni. 

 

Einar Jóns: Það eru allir eins og Mikkel Hansen þegar þeir mæta Gróttu

„Við vorum bara mjög lélegir“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Gróttu að leik loknum

„Þetta var bara eins og þetta er búið að vera hjá okkur í vetur, við skorum þetta um 20 mörk en fáum svo fullmikið af mörkum á okkur. Þetta eru bara gæðin hjá okkur, við erum bara ekkert betri en þetta.“

„Það er alveg sama hvaða fálka við erum að spila á móti það eru bara allir eins og Mikkel Hansen þegar þeir mæta Gróttu. Það er bara búið að vera þannig í allan vetur og það eru bara við sem getum breytt því. Tíminn fer nú samt að renna út fyrir okkur að sýna eitthvað annað.“ sagði Einar sem var allt annað en sáttur með leikinn

Arnar Jón Agnarsson, leikmaður Gróttu, spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í kvöld. Innkoma hans í liðið gerði ekki mikið í þessum leik þar sem hann fékk beint rautt spjald eftir rúmar tvær mínútur. Einar tjáir sig lítið um spjaldið en hann bindir vonir við að Arnar hjálpi þeim í þeirra baráttu

„Þetta var örugglega bara réttur dómur eins og allir aðrir dómar í þessum leik og öðrum leikjum. En ég vona auðvitað að hann geti hjálpað okkur eitthvað sóknarlega, komið smá flæði á sóknarleikinn en það verður bara að koma í ljós.“ sagði Einar að lokum

 

Halldór Jóhann: Jákvætt að komast í gegnum leikinn án þess að fleiri meiðist

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var ánægður með framlag sinna manna í kvöld

„Þetta var bara góður sigur hjá okkur. Við fáum á okkur 20 mörk, það er svona það jákvæðasta en við gerðum alveg töluvert af feilum. Það er ekkert auðvelt að koma hérna út á Nes og vinna sjö marka sigur.“ 

„Mér fannst við bara vera flottir miðað við hvernig Janúar mánuður hefur spilast hjá okkur. Við erum fáir á æfingum og menn hafa verið að koma bæði nýjir inn á æfingum og svo eru aðrir að koma til baka eftir meiðsli svo það er líka bara jákvætt komast í gegnum þennan leik með sigur og engan annan meiddann.“ sagði Halldór Jóhann en hann var vígalegur meiðsla bekkurinn sem fylgdist með FH í kvöld

Einar Rafn Eiðsson, Arnar Freyr Ársælsson, Jóhann Karl Reynisson og Birgir Már Birgisson voru uppí stúku í kvöld en þeir glíma allir við meiðsli. Það munur um minna fyrir Halldór en hann vonast eftir því að vera búinn að endurheimta þá alla fyrir úrslitakeppnina

„Þeir fara að detta inn svona einn og einn núna á næstu vikum og mánuðum. Ég vona að ég fái Arnar Freyr inn bráðlega en það er lengra í hina. Birgir Már gæti komið inn seinna í mánuðinum en ég vona að Einar Rafn og Jóhann Karl nái úrslitakeppninni. Við þurfum bara að taka einn leik í einu núna, það er bara gamla klisjan.“ sagði Halldór að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira