Í ár eru 40 ár síðan hann kom fyrst opinberlega fram. Skömmu síðar var hann kominn í Stundina okkar og þaðan lá leiðin inn á skemmtistaði bæjarins. „Ég var fastbókaður í Hollywood í hverri viku. Var að koma fram upp úr miðnætti. Þetta vakti lukku og var mikill skóli fyrir mann,“ segir hann.

Hann hefur sett saman það besta sem hann kann og verður sýningunni varpað upp á skjá svo allir geta séð sem best.
„Salurinn er mjög skemmtilegur til að halda töfrasýningu. Þarna verða öll mín bestu atriði, bæði þau sem ég hef verið að sýna í gegnum tíðina og þau nýlegustu. Þarna verða rakvélarblöðin flugbeittu, hugsanalestur og sjónhverfingar og allt þar á milli. Einnig ætla ég að taka þessi sem eru spari og maður hefur ekki gert í mörg ár.
Það sem er skemmtilegt við Salinn er að það eru ekki nein slæm sæti. Til að auka upplifunina verð ég með skjá fyrir ofan sviðið og er búinn að ráða vin minn frá Sagafilm sem ætlar að taka þetta upp og sýna í nærmynd. Fólk kemur til með að sjá allt mjög vel,“ segir hann og leggur áherslu á orðið mjög.
Margir þekkja Ingó einnig fyrir að fara fimum fingrum um gítarinn en nýverið urðu mannabreytingar í hljómsveitinni Dimmu sem hefur rokkað og rólað í mörg herrans ár.
„Hljómsveitin er 15 ára í ár, Stefán Jakobsson söngvari er búinn að vera í átta ár og Egill er núna nýkominn inn. Við erum að fara að spila aftur í lok mars og byrjum að spila í Skyrgerðinni í Hveragerði og svo verður meira og minna komið fram á tónleikum víða um land.
Planið er svo að semja eitthvað nýtt og koma frá sér á árinu.“