Enski boltinn

FIFA setur Chelsea í félagaskiptabann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki verður starfið auðveldara hjá Mauricio Sarri.
Ekki verður starfið auðveldara hjá Mauricio Sarri. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Chelsea hefur verið sett í félagaskiptabann til næstu tveggja félagskiptaglugga vegna brota á reglum um félagaskipti og skráningu ungra leikmanna.

Frá þessu er greint á vef Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, en aganefnd sambandsins fann Chelsea-menn seka um brot á tveimur reglugerðum.

Chelsea braut grein 19 í tilviki 29 yngri leikmanna með því að sinna ekki réttri skráningu þeirra og uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til þess sem yngri leikmenn þurfa að fá.

Einnig braut Chelsea 18. grein FIFA með því að hafa áhrif á önnur félög í félagaskiptum á tveimur yngri leikmönnum en FIFA leggur mikið upp úr því að vernda unga leikmenn þegar kemur að vistaskiptum þeirra.

Chelsea var sektað um 600.000 svissneska franka eða því sem nemur 71 milljón króna en þá var enska knattspyrnusambandið einnig sektað um 510.000 franska eða 61 milljón króna.

Enska sambandið braut sömuleiðis reglur í tengslum við unga leikmenn en ekki er útskýrt frekar hvað það á að hafa gert af sér. Það fær nú hálft ár til þess að vinna í málunum og svara fyrir sig hjá FIFA. Chelsea fær 90 daga.

Ákvörðun FIFA var gefin út í dag en bæði Chelsea og enska knattspyrnusambandið mega áfrýja til áfrýjunarnefndar FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×