Enski boltinn

Manchester City hefur haft heppnina með sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. Getty/Jan Kruger
Manchester City á enn góða möguleika á að vinna fjórfalt á þessu tímabili. Liðið er í fínum málum í ensku deildinni, hefur þegar unnið enska deildabikarinn og er komið í undanúrslit enska bikarsins og átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Það reynir vissulega mikið og leikmenn og stjóra að keppa á öllum þessum vígstöðvum en vonin um sögulegt tímabil lifir enn.

Manchester City er vissulega með frábært fótboltalið með mikla breidd. Það er stórt atriði en annað lykilatriði er hversu heppið Manchester City hefur verið í öllum bikardráttum tímabilsins.



Þetta sjáum við á þeim liðum sem Manchester City hefur dregist á móti í þessum þremur keppnum.

Í enska deildabikarnum dróst liðið á móti C-deildarliði Oxford, botnliði Fulham og C-deildarliði Burton. Burton Albion er eins og er í 11. sæti C-deildarinnar og Oxford United er í 19. sæti í sömu deild. Liðið vann síðan Chelsea í úrslitaleiknum.

Í enska bikarnum dróst City-liðið á móti Rotherham United sem er í fallsæti í b-deildinni, Newport County sem er í D-deildinni og loks Swansea City sem er í neðri hluta B-deildarinnar. Mótherji Manchester City í undanúrslitum enska bikarsins er Brighton & Hove Albion sem er í fimmtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Í ensku bikarkeppnunum tveimur dróst Mancheste City þannig á móti neðrideildarliðum í sex af sjö tilfellum og þar af voru þrjú þeirra ekki í tveimur efstu deildunum.

Í Meistaradeildinni lenti Manchester City síðan í riðli með Lyon, Shakhtar Donetsk og 1899 Hoffenheim og hefur síðan dregist á móti Schalke og Tottenham í útsláttarkeppninni.

Manchester City þarf mögulega að vinna Juventus og Barcelona ætli liðið að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×