Breski fjárfestingasjóðurinn Actis, sem sérhæfir sig í fjárfestingum á vaxtarmörkuðum, hefur aukið við hlut sinn í Creditinfo Group úr tíu prósentum í 20 prósent.
Heimildir herma að sjóðurinn hafi alls fjárfest fyrir 17 milljónir evra, jafnvirði 2,3 milljarða króna, í Creditinfo. Við kaupin mun Ali Mazanderani, meðeigandi hjá Actis, taka sæti í stjórn fyrirtækisins.
Actis fjárfesti upphaflega í Creditinfo árið 2016. Fyrirtækið er leiðandi fjárfestir í Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku. Fjárfestingasjóðurinn keypti nú tíu prósenta hlut af Reyni Grétarssyni, stofnanda og stjórnarformanni fyrirtækisins, sem á 68 prósenta hlut eftir söluna.
Creditinfo hefur sótt fram á vanþróaðri mörkuðum sem eru í örum vexti. Fyrirtækið hefur opnað yfir 30 starfsstöðvar í fjórum heimsálfum, þar af rekur það ellefu skrifstofur í Afríku, og er með viðskipti í 45 löndum. Fram hefur komið í Markaðnum að félagið hafi vaxið um 15 prósent á ári býsna lengi. Veltan var um 38 milljónir evra í fyrra, jafnvirði 5,2 milljarða króna.
Það aðstoðar lánastofnanir við að stýra áhættu tengdri útlánum. Gögnum er safnað og breytt í upplýsingar sem eru notaðar við ákvarðanatöku.
„Ákvörðun Actis um frekari fjárfestingu í Creditinfo styður við og styrkir viðskiptaáætlanir fyrirtækisins,“ segir Reynir í tilkynningu. „Við höldum áfram að efla starfsemi okkar og útvíkka á mörkuðum þar sem tækni okkar styður við markmið viðskiptavina fyrirtækisins um vöxt og skjóta aðlögun að aðstæðum.“
Reynir selur tíu prósenta hlut í Creditinfo Group
Helgi Vífill Júlíusson skrifar

Mest lesið


Síðasti dropinn á sögulegri stöð
Viðskipti innlent



Ráðinn framkvæmdastjóri Starbucks á Íslandi
Viðskipti innlent

Ætlar ekki að deyja í smán og gefur frá sér auðæfin
Viðskipti erlent

Svandís tekur við Fastus lausnum
Viðskipti innlent


Ríkið eignast hlut í Norwegian
Viðskipti erlent

Sjóvá fundaði með PPP en afþakkaði þjónustu
Viðskipti innlent