Stórskytta Valsmanna, Agnar Smári Jónsson, gekkst undir aðgerð í morgun og er alls óvíst hvort hann spili meira með liðinu í vetur. Það væri mikið áfall fyrir Valsmenn að missa hann út.
Agnar Smári er með brjósklos og eftir skoðanir og fundi í gær var ákveðið að senda hann í aðgerð.
Hann mun því ekkert geta gert næsta mánuðinn en endurhæfing hefst í fyrsta lagi eftir mánuð. Hvernig hann kemur undan aðgerðinni kemur ekki í ljós fyrr en síðar en ljóst að afar ólíklegt er að hann nái úrslitakeppninni með sínu liði.
Skyttan er búin að skora 52 mörk í 15 leikjum í Olís-deildinni í vetur. Hann er oftar en ekki maður stóru leikjanna og ljóst að hans verður sárt saknað þegar stóri dansleikurinn hefst.
