Bergur Snær sonur hennar var 19 ára gamall þegar hann svipti sig lífi fyrir þremur árum. Sigurþóra telur að skömm vegna kynferðisofbeldis á unglingsárum hafi orðið honum að aldurtila.
Og nú í vikunni, á dánardegi Bergs Snæs, þremur árum síðar settist hún niður og skrifaði undir leigusamning fyrir Bergið á Suðurgötu 10 í miðbæ Reykjavíkur. Þar hyggst hún ásamt öflugu liði fagfólks hjálpa ráðvilltu ungu fólki að finna sína leið í tilverunni.
„Ótrúleg og falleg,“ segir Sigurþóra í samtali við Vísi um viðbrögðin sem hún hefur fengið eftir að hún upplýsti að húsnæðið fyrir Bergið væri í höfn.
Hún auglýsti á Facebook eftir fjármagni, húsgögnum og sjálfboðaliðum og situr nú sveitt við að svara fólki sem vill rétta fram hjálp sína.
„Viðbrögðin hljóta að endurspegla hve þörfin fyrir svona ungmennasetur er mikil,“ segir hún.
Sigurþóra er meðal viðmælenda í lokaþætti af „Viltu í alvöru deyja“ á Stöð 2 annað kvöld. Í myndbrotinu sem hér fylgir segir Sigurþóra frá því að hún telji það hafa verið mistök að þvinga Berg Snæ til að segja frá kynferðisofbeldinu sem hann varð fyrir sem unglingur. Skömmin hafi verið honum of þungbær.
Lokaþátturinn í þáttaröðinni „Viltu í alvöru deyja?“ er á dagskrá Stöðvar 2 kl. 20:40, annað kvöld, sunnudag.
Í þættinum ræðir Lóa Pind við aðstandendur fólks sem hefur svipt sig lífi en einnig við unga stúlku sem stóð á barmi sjálfsvígs á síðasta ári, en hætti við á elleftu stundu og bjargaðist. Leikstjórn og handrit er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, myndatökumaður er Ívar Kristján Ívarsson og klippingu annaðist Ólafur Þór Chelbat.
Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum:
Hringdu í Hjálparsíma Rauða krossins: 1717 - opið allan sólarhringinn
Talaðu við netspjall Rauða krossins á raudikrossinn.is
Eða pantaðu tíma hjá Pieta samtökunum: pieta.is