Handbolti

Guðmundur: Erum með alltof gott lið til að falla

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Guðmundur Helgi er þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi er þjálfari Fram. vísir/bára
„Að sjálfsögðu er mjög þungum farga af mér létt,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, að leik loknum þegar ljóst var að liðið hefði haldið sér uppi í Olís-deildinni.

„Ég er gríðalega stoltur af strákunum og stuðningsmönnum sem mættu hingað í dag að styðja okkur.“

„Við komum okkur í vonda stöðu með stigasöfnun í vetur og þegar á reyndi þá tóku menn sig saman í andlitinu og spiluðu góðan leik.“

Guðmundur segir að þeir geti sjálfum sér um kennt hvernig staðan hefði verið en segir jafnframt að liðið sé alltof vel mannað til þess að falla úr þessari deild.

„Ég er búinn að segja það í allan vetur að við erum með of gott lið til að vera í þessari stöðu en við vorum komnir í þessa stöðu, við þurftum að vinna okkur útúr henni og það tókst loksins.“

Leikmenn Fram mættu dýrvitlausir til leiks og kom aldrei neitt annað en sigur til greina. Þeir lentu þó undir gegn sterku liði Eyjamanna en um miðbik síðari hálfleiks náðu þeir tökunum á leiknum og kláruðu með góðum fimm marka sigri.

„Við ætluðum að halda þeim í 27 mörkum en þeir voru komnir í 17 mörk í hálfleik. Svo við rifum vörnina upp í seinni og þá fengum við nokkra bolta varða og hraðaupphlaup sem skiptu máli. Menn höfðu bara trú á verkefninu það er númer 1, 2 og 3.“

Guðmundur segir að leikmenn og aðrir starfsmenn hafi ekki verið að fylgjast með úrslitum annara leikja en það var vitað að ef Akureyri myndi tapa sínum leik að þá skiptu úrslit þessa leiks engu máli.

„Nei við ákváðum fyrir leik að vera ekkert að spá í því, við ætluðum að klára þetta sjálfir en ekki treysta á einhverja aðra,“ sagði Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×