Fótbolti

„Ofur sérstakur“ undirbúningur fyrir það að mæta Messi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
De Gea á æfingasvæðinu
De Gea á æfingasvæðinu vísir/getty
David de Gea er búinn að undirbúa sig sérstaklega vel og meira heldur en hann gerir venjulega til þess að vera reiðubúinn í að mæta Lionel Messi.

Manchester United sækir Barcelona heim í Meistaradeild Evrópu í kvöld og þarf United að vinna upp 1-0 forskot Börsunga úr fyrri leiknum.

Messi, sem er að margra mati einn besti fótboltamaður sögunnar, er búinn að skora 44 mörk í öllum keppnum á tímabilinu og var hvíldur um helgina í undirbúningi fyrir leikinn í kvöld.

Emilio Alvarez, markmannaþjálfari Manchester United, sagði við ESPN að þeir hefðu undirbúið sig öðruvísi fyrir þennan leik heldur en fyrir aðra leiki.

„Við fórum í ofur sérstakan undirbúning. Ég vann með David á Spáni í mörg ár og hef unnið með öðrum markvörðum, en þegar það kemur að því að mæta Messi þá reynir þú að koma með eitthvað meira til þess að hjálpa markmanninum,“ sagði Alvarez.

„En við vitum hins vegar öll að sama hversu mikið þú hellir þér yfir Messi og reynir að bæta við vopnabúrið þá snýst þetta í lokin um hæfileika.“

„Án þess að fara í smáatriði þá gerum við ýmislegt öðruvísi í undirbúningi fyrir leik gegn Messi en í öllum öðrum leikjum.“

Leikur Barcelona og Manchester United hefst klukkan 19:00 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×