Fyrir leikinn í gær var Ísland búið að leika 22 keppnisleiki í Laugardalshöllinni í röð án þess að tapa, auk eins leiks sem fór fram á Ásvöllum (38-24 sigur á Eistlandi 2009). Tuttuguogeinn leikur vannst og tveir enduðu með jafntefli. Ísland var búið að vinna níu keppnisleiki á heimavelli í röð áður en að leiknum í gær kom.
Ísland tapaði fyrir Svíþjóð, 25-26, í seinni leik liðanna í umspili um sæti á HM 2007 á 17. júní 2006. Tapið kom ekki að sök því Íslendingar unnu fyrri leikinn ytra, 32-28, og sennilega hefur aldrei verið fagnað jafn mikið og innilega eftir tapleik í Höllinni og á þjóðhátíðardaginn fyrir 13 árum.

Alfreð var þjálfari íslenska liðsins þegar það tapaði fyrir Svíþjóð 2006. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fjögur mörk í leiknum en hann er sá eini sem er enn í íslenska liðinu frá 2006.
Aron Pálmarsson átti stórkostlegan leik gegn Makedóníu í gær og skoraði tólf mörk. Þetta var hans fyrsta tap í keppnisleik á heimavelli á landsliðsferlinum. Hann lék sinn fyrsta landsleik þegar Ísland vann Belgíu, 40-21, í undankeppni EM 29. október 2008. Aron skoraði tvö mörk í leiknum.
Íslenska liðið hefur ekki lagt það í vana sinn að tapa í Laugardalshöllinni á undanförnum árum, hvort sem er um að ræða vináttu- eða keppnisleiki. Áður en að leiknum í gær kom var síðasta tap Íslands í Höllinni fyrir Þýskalandi, 24-31, í vináttulandsleik 4. janúar 2015.
Íslendingar fá tækifæri til að hefna ófaranna í Höllinni í gær þegar þeir mæta Norður-Makedóníumönnum í Skopje á sunnudaginn kemur. Þrátt fyrir tapið í gær er Ísland enn á toppi riðils 3 og fái liðið stig gegn Norður-Makedóníu á sunnudaginn fer íslenska liðið langt með því að tryggja sér sigur í riðlinum.

2019
Ísland 33-34 Norður-Makedónía (undankeppni EM 2020)
2018
Ísland 35-21 Grikkland (undankeppni EM 2020)
Ísland 34-21 Litháen (umspil fyrir HM 2019)
2017
Ísland 34-26 Úkraína (undankeppni EM 2018)
Ísland 30-29 Makedónía (undankeppni EM 2018)
2016
Ísland 25-24 Tékkland (undankeppni EM 2018)
Ísland 26-23 Portúgal (umspil fyrir HM 2017)
2015
Ísland 34-22 Svartfjallaland (undankeppni EM 2016)
Ísland 38-22 Serbía (undankeppni EM 2016)
2014
Ísland 36-19 Ísrael (undankeppni EM 2016)
Ísland 29-29 Bosnía (umspil fyrir HM 2015)
2013
Ísland 37-27 Rúmenía (undankeppni EM 2014)
Ísland 35-34 Slóvenía (undankeppni EM 2014)
2012
Ísland 36-28 Hvíta-Rússland (undankeppni EM 2014)
Ísland 41-27 Holland (umspil fyrir HM 2013)
2011
Ísland 44-29 Austurríki (undankeppni EM 2012)
Ísland 36-31 Þýskaland (undankeppni EM 2012)
2010
Ísland 28-26 Lettland (undankeppni EM 2012)
2009
Ísland 34-26 Makedónía (undankeppni EM 2010)
Ísland 34-34 Noregur (undankeppni EM 2010)
2008
Ísland 40-21 Belgía (undankeppni EM 2010)
Ísland 30-24 Makedónía (umspil fyrir HM 2009)
2007
Ísland 42-40 Serbía (umspil fyrir EM 2008)
2006
Ísland 25-26 Svíþjóð (umspil fyrir HM 2007)