Handbolti

HK fellur frá kærunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Umspilið getur hafist á ný, en því var frestað á meðan málið var í meðferð
Umspilið getur hafist á ný, en því var frestað á meðan málið var í meðferð vísir/vilhelm
Handknattleiksdeild HK hefur fallið frá kæru sinni vegna leiks HK og Þróttar í fyrsta leik liðanna í umspili um laust sæti í Olísdeild karla á næsta tímabili.

HSÍ og HK staðfestu þetta með tilkynningum á fjölmiðla nú rétt í þessu.

Forsaga málsins er sú að mótanefnd HSÍ hafði dæmt Þrótti sigur í fyrsta leik liðanna í umspilinu þar sem HK tefldi fram ólöglegum leikmanni að mati mótanefndar.

HK kærði þann úrskurð.

Í gær funduðu fulltrúar HK og HSÍ um málið og í kjölfarið ákvað HK að falla frá kæru sinni.

„Ástæða þess er sú að kærumál líkt og þetta getur tekið langan tíma í meðferð innan hreyfingarinnar og slíkt ferli myndi raska framkvæmd umspils um laust sæti í Olís deild karla verulega. Handknattleiksdeild HK telur því þá ákvörðun um að falla frá kærunni réttast í stöðunni fyrir alla hagsmunaaðila,“ sagði í tilkynningu frá HK.

Í tilkynningu frá HSÍ kom fram að í ljósi þessa máls muni HSÍ yfirfara reglur um leikmannasamninga og félagaskipti „og athuga hvort þörf sé á því að einfalda og skýra reglurnar.“

Þrótti var dæmdur 10-0 í fyrsta leik liðanna en HK vann annan leikinn 27-22. Liðin mætast þriðja sinn á föstudaginn og sigurvegari þess leiks fer áfram í lokaumspilið við Víking.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×