Handbolti

Snorri Steinn: Væri til í að vinna með 10 á föstudaginn

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson vísir/vilhelm
Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals var skiljanlega svekktur eftir tap sinna manna gegn Selfossi í kvöld. Hann sagði að þeir þyrftu að laga margt fyrir næsta leik. Selfoss vann leikinn 36-34 eftir framlengingu.

„Ég þarf aðeins að horfa á leikinn aftur til að meta það til fulls en þetta var bara stál í stál og mjög jafn leikur. Við skorum mikið af mörkum og þegar við skorum 30 mörk þá á það að duga okkur til sigurs en það var ekki þannig.”

„Við erum að spila á móti frábæru liði og það var hægt að spá því að þetta yrði alvöru leikur. Við erum fúlir núna en við þurfum að jafna okkur og menn þurfa að komast yfir þetta og vera klárir í hörkuleik aftur á föstudaginn.”

Snorri var ekki sáttur með brottvísanirnar þrjár sem Orri Freyr Gíslason fékk á sig á stuttum tíma í fyrri hálfleik en hann vildi ekki tjá sig meira um það.

Hann bætti við að hann hefði engar áhyggjur af ástandi sinna manna þrátt fyrir erfiðan og langan leik í kvöld og var síðan að lokum spurður út í það hvort einvígið myndi ekki einfaldlega þróast svona. Allir leikir jafnir og ráðast á síðustu sekúndum leiksins.

„Ég væri nú til í að vinna með 10 mörkum á föstudaginn en ég myndi ekki setja rosa mikinn pening á það. En þetta eru bara tvö góð og jöfn lið. Það munaði ekki nema 1 stigi á liðunum í deildinni þannig að það er ekki ólíklegt,” sagði Snorri að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×