Handbolti

80 prósent mæting Arons til Kölnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson þarf að fara að kaupa sér hús í Köln.
Aron Pálmarsson þarf að fara að kaupa sér hús í Köln. vísir/getty
Aron Pálmarsson og félagar í Spánarmeistaraliði Barcelona komust örugglega til Kölnar á Final Four-helgina í Meistaradeild Evrópu um helgina þegar að liðið lagði Nantes, 29-26, í seinni leik liðanna á heimavelli.

Börsungar voru mest sannfærandi allra í átta liða úrslitunum og voru eina liðið sem vann bæði heima og að heiman en Aron og félagar lögðu sterkt lið Nantes með sjö mörkum á útivelli og gengu svo frá verkefninu heima um helgina.

Þetta verður í tíunda sinn sem úrslitin í Meistaradeildinni ráðast með Final Four-helgi í Lanxess-höllinni í Köln. Fyrst var spilað með þessu fyrirkomulagi árið 2010 en þá vann Aron einmitt Meistaradeildina með Kiel.

Aron er á leið í áttunda sinn í úrslitahelgina og er því með 80 prósent mætingu á stærsta svið félagsliðahandboltans en hann hefur unnið Meistaradeildina tvisvar sinnum, árin 2010 og 2012 með Kiel.

Aron hefur tvívegis verið kjörinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar en því miður fyrir Hafnfirðinginn var það í bæði skiptin eftir tap í úrslitaleiknum. Fyrst með Kiel eftir tap gegn Flensburg 2014 og aftur með Veszprém eftir tap gegn Kielce í ótrúlegum úrslitaleik árið 2016 þar sem úrslitin réðust í vítakastkeppni.

Barcelona er afskaplega sigurstranglegt í Meistaradeildinni þetta árið en það er eina vestur-Evrópuliðið sem komst til Kölnar. Einnig komust Vardar frá Makedóníu, Kielce frá Póllandi og Veszprém frá Ungverjalandi.

Þetta er í fyrsta sinn sem þrjú lið úr austurblokkinni mæta til leiks í Final Four en í fyrra voru þrjú frönsk lið. Annað árið í röð eru engin þýsk lið en fimm ár eru síðan að fleiri en eitt þýskt lið tryggðu sér farseðilinn til Kölnar.

Aron í Final Four:

2010: Vann Meistaradeildina með Kiel

2011: Komst ekki með Kiel

2012: Vann Meistaradeildina með Kiel

2013: Tapaði leiknum um bronsið með Kiel

2014: Tapaði úrslitaleiknum með Kiel, valinn bestur

2015: Tapaði leiknum um bronsið með Kiel

2016: Tapaði í úrslitum fyrir Kielce, valinn bestur

2017: Brons með Veszprém

2018: Komst ekki með Barcelona

2019: Kominn í Final Four með Barcelona




Fleiri fréttir

Sjá meira


×