Eyjamenn fá Hauka í heimsókn í kvöld í undanúrslitum Olís deildar karla í handbolta en staðan í einvíginu er 1-0 fyrir Hauka.
Leikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19.00 í Íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum en útsendingin Stöðvar 2 Sport frá leiknum hefst klukkan 18.50.
Haukar geta stigið stórt skref í átt að úrslitaeinvíginu með sigri í Eyjum í kvöld en þá þurfa þeir að gera það sem engu liði hefur tekist á móti ÍBV í 747 daga sem er að vinna leik í úrslitakeppninni úti í Eyjum.
Eyjaliðið hefur unnið sex heimaleiki í röð í úrslitakeppninni. ÍBV liðið vann alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni í fyrra og svo leik sinn á móti FH í átta liða úrslitunum á dögunum.
Eyjamenn hafa enn fremur unnið þrjá síðustu heimaleiki sína í úrslitakeppninni með samtals 21 marki eða með sjö mörkum að meðaltali.
Eyjamenn töpuðu síðast á heimavelli sínum í úrslitakeppninni í oddaleik í átta liða úrslitunum á móti Val 15. apríl 2017. Síðan eru liðin meira en tvö ár.
Haukaliðið þekkir það reyndar að vinna leik í úrslitakeppninni út í Eyjum þrátt fyrir tvö töp þar í fyrra. Vorið 2016 unnu haukarnir tvisvar út í Eyjum í undanúrslitaeinvígi félaganna.
Síðustu sex heimaleikir Eyjamanna í úrslitakeppni karla í handbolta:
Átta liða úrslit 2018
4 marka sigur á ÍR (22-18) - Markahæstur: Kári Kristján Kristjánsson 6
Undanúrslit 2018
2 marka sigur á Haukum (24-22) - Markahæstur: Sigurbergur Sveinsson 7
2 marka sigur á Haukum (27-25) - Markahæstur: Agnar Smári Jónsson 6
Lokaúrslit 2018
6 marka sigur á FH (32-26) - Markahæstur: Róbert Aron Hostert 7
7 marka sigur á FH (29-22) - Markahæstur: Róbert Aron Hostert 8
Átta liða úrslit 2019
8 marka sigur á FH (36-28) - Markahæstur: Sigurbergur Sveinsson 8

