Handbolti

Patti: Frábær kraftur frá okkar fólki í stúkunni

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Selfyssingar mættu vel í DB Schenkerhöllina í Hafnarfirði
Selfyssingar mættu vel í DB Schenkerhöllina í Hafnarfirði vísir/vilhelm
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss var mjög ánægður með sigur sinna manna á Haukum í fyrsta leik liðanna í úrslitum Olís deildar karla. Hann sagði varnarleikinn hafa gert útslagið í kvöld.

„Það var varnarleikurinn, fyrst og fremst. Sölvi var stórkostlegur og Sverrir mjög flottur. Það var planað að setja hann inn eftir smá tíma en við vildum ekki gera það útaf hraðaupphlaupunum. Svo þessi kraftur frá fólkinu hérna, við lentum í vandræðum en leysum það mjög vel.”

Hann var mjög ánægður með varnarleikinn og Sölva í markinu en hann varði yfir 50% skotanna sem hann fékk á sig.

„Haukar skora bara 22 mörk sem er frábært fyrir okkur. Stór þáttur í því er sterk vörn og Sölvi sem var geggjaður sem er frábært að sjá.”

Gestirnir hreinlega áttu stúkuna í kvöld en það var fjölmennt frá Selfossi og lætin voru mikil í gestastúkunni. Patti var gríðarlega ánægður með sitt fólk.

„Já ég er mjög ánægður en þetta er búið að vera svona í allan vetur og þessi ár sem ég hef verið hérna. Þetta er stórkostlegt fólk og menn mega brosa núna en Haukarnir eru hrikalega sterkir og þetta er bara rétt að byrja.”

Patti var spurður að lokum hvort hann væri ekki ánægður að skila sigri með stóra bróður sinn, Guðna Th. Jóhannesson Forseta Íslands í stúkunni í kvöld.

„Jújú það er alltaf gaman að hafa hann í stúkunni, ég er bara ánægður að hafa hitt hann og þarf að fara gera það oftar og það er jákvætt að hann hafi séð þennan flotta leik, sagði Patrekur að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×